SFS: fiskeldi er framtíðin – 24 milljarðar króna útflutningsverðmæti á 6 mánuðum

Fram kemur í fréttabréfi samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, SFS, að á fyrstu sex mánuðum ársins er útflutningsverðmæti eldisafurða komið í rúma 24 milljarða króna. Verðmætin eru rúmlega 14% af útflutningsverðmæti sjávarafurða og það hlutfall hefur aldrei áður verið hærra á tilgreindu tímabili. Þetta má sjá í fyrstu bráðabirgðatölum Hagstofunnar um vöruskipti í júní sem birtar voru fyrr í þessum mánuði. 

Útflutningsverðmæti eldisafurða sem hlutfall af verðmæti sjávarafurða aukist verulega undanfarinn áratug. Fyrir um áratugi síðan var hlutfallið innan við 3% en er nú nærri fimm sinnum hærra eða ríflega 14%.

Búist er við að hlutdeildin hækki enn frekar á komandi árum þar sem framleiðslan er enn innan við helmingur af útgefnum leyfum.



Eldi orðið meira en veiðar

Fram kemur  í nýrri og umfangsmikilli skýrslu Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu Þjóðanna (FAO), um stöðu fiskveiða og lagareldis í heiminum  að heildarframleiðsla lagarafurða á heimsvísu hafi numið um 185 milljónir tonna á árinu 2022 og hefur hún aldrei verið meiri. Fyrir rúmum 40 árum var framleiðslan í heild í kringum 75 milljónir tonna og fyrir um 30 árum um 100 milljónir tonna. Langstærsti hluti þessarar aukningar hefur komið frá lagareldi, enda hefur afli frá fiskveiðum verið svo til stöðugur frá árinu 1990, eða í kringum 90 milljónir tonna.

Framleiðslan á lagarafurðum á árinu 2022 skiptist þannig að um 91 milljónir tonna komu frá hefðbundnum veiðum og 94,4 milljónir frá lagareldi, eða 49% á móti 51%. Þetta er í fyrsta sinn sem framleiðsla á eldisafurðum tekur fram úr því sem kemur frá hefðbundnum veiðum.

DEILA