Ókeypis trúðanámskeið á Act alone

Hin einstaka leiklistar- og listhátíð Act alone verður haldin hátíðleg dagana 7. – 10. ágúst á Suðureyri. Hátíðin fagnar nú 20 ára afmæli, já svona líður tíminn einstaklega snöggt, og því verður margt einstakt og einleikið í boði. Já, einmitt í boði því það er frítt á alla viðburði á Act alone einsog reyndar verið hefur frá upphafi, 2004. Til gamans má geta þess að alls hefur verið boðið upp á um 350 ókeypis viðburði á Act alone í þessa tvo áratugi.

Að vanda verður boðið upp á veglega dagskrá fyrir börn og stórfjölskylduna. Má þar nefna brúðuleiksýninguna Búkolla og töfrasýningu Jóns Víðis. Einnig verður boðið upp á tvö námskeið. Á laugardeginum 10. ágúst leiðir hinn töfrandi Jón Víðis loftbelgjasmiðju og öll eru velkomin líka mamma og pabbi og afi og amma. En á miðvikudag 7. ágúst og fimmtudag 8. ágúst verður boðið upp á töfranámskeið. Kennari er engin önnur en trúðurinn Fransoise Simon. Trúðanámskeiðið er fyrir börn á aldrinum 6 til 10 ára og er vitanlega ókeypis. En mikilvægt er að skrá sig á netfangið komedia@komedia.is

Á trúðanámskeiðinu verður farið í einfaldar en skemmtilegar æfingar. Börnin munu uppgötva ánægjuna af því að leika með vingjarnlegum félögum,  en umfram allt að leika fyrir áhorfendur, af því að vera stolt af sjálfum sér og af því sem þau geta, ekki gefast upp, að reyna hluti sem þau hafa aldrei gert. Það ríkir engin keppni hjá trúðnum hver og einn gerir aðeins það sem hann getur best, ekkert meira þarf til.

Dagskrá Act alone má sjá á heimasíðunni www.actalone.net

DEILA