Listahátíð Samúels um helgina

Listahátíð Samúels verður haldin að Brautarholti í Selárdal í Arnarfirði á vegum Félags um listasafn Samúels helgina 19.-21. júlí. Guðni Rúnar Agnarsson verður með athöfn í kirkjunni á föstudagskvöldinu og Elfar Logi Hannesson verður þá með leiðsögn að Uppsölum. Margir listamenn munu taka þátt. Krummi Björgvins,
Skúli mennski og fleiri tónlistarmenn koma fram í kirkjunni auk þess sem Einar Már Guðmundsson verður með sögustund og Kraftgalli verður með dj-sett. Loji Höskuldsson og Þorvaldur Jónsson opna sýninguna Á leiðarenda í listasafninu. 

Á þessu ári eru 140 ár frá fæðingu Samúels og verða lesnar upp nokkrar sögur  sem birtast í bókinni Steyptum draumum sem fjallar um líf og list Samúels. Sýnd verður samnefnd kvikmynd Kára G. Schram og Ólafs J. Engilbertssonar. 

Boðið verður upp á leiðsögn um verk Samúels, bæði höggmyndir og málverk  og Gerhard König segir frá viðgerðum á verkunum. 

Á laugardagskvöldinu verður brekkusöngur við ströndina. Boðið verður upp á gönguferðir með leiðsögn í Verdali og Vatnahvilft. Flugdrekasmiðja fyrir fjölskyldur verður einnig í boði. Aðgangur er kr. 12.000 og er innifalin súpa á föstudagskvöldinu og ljúffengur kvöldverður á laugardagskvöldinu. 

Miðasala er á tix.is.

DEILA