Gjaldfrjálsar skólamáltíðir: 1.725 m.kr. úr ríkissjóði

Grunnskólinn á Ísafirði.

Kynnt hefur verið minnisblað frá sambandi íslenskra sveitarfélaga um kostnað við gjaldfrjálsar skólamáltíðir. Framlag úr ríkissjóði í gegnum jöfnunarsjóð sveitarfélaga til sveitarfélaga fyrir tímabilið ágúst til desember í ár er 1.725 m.kr.

Fjárhæðin er ekki fastsett í lögum heldur verður hún ákvörðuð í fjárlögum ár hvert 2024 til og með 2027. Lögin má rekja til sameiginlegrar yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 7. mars sl. sem hafði það að markmiði að greiða fyrir langtímakjarasamningum á vinnumarkaði.

Í lögum um rekstur grunnskóla segir að nemendur skuli eiga kost á málsverði á skólatíma í samræmi við næringarráðleggingar Embættis landlæknis (áður kallað opinber manneldismarkmið). Þá er sveitarfélögum
heimilt að taka gjald fyrir skólamáltíðir samkvæmt sérstakri gjaldskrá sem þau setja og hafa flest sveitarfélög nýtt sér þá heimild og innheimt gjald sem að meðaltali hefur staðið undir 40% hluta af kostnaði fyrir framleiðslu máltíða fyrir grunnskólabörn.

Samkvæmt sameiginlegri yfirlýsingu ríkisstjórnar og Sambandsins á framlag ríkisins að meðaltali að jafngilda 75% af því sem foreldrar hefðu áður greitt. Mismuninn greiðir svo sveitarfélagið.

Fyrirkomulagið verður þannig að framlagið skal skiptast hlutfallslega milli sveitarfélaga eftir heildarnemendafjölda í grunnskólum í hverju sveitarfélagi 1. janúar skólaárið á undan og greiðist mánaðarlega til sveitarfélaga frá 1. ágúst 2024 til loka skólaárs 2027, að undanskildum júlímánuði ár hvert.

Samkvæmt skiptingunni fær Ísafjarðarbær 17,5 m.kr. á þessu tímabili og sveitarfélögin á Vestfjörðum um 30 m.kr.

DEILA