Sunnudaginn 21. júlí mun landvörður Umhverfisstofnunar leiða göngu að Sjöundá á Rauðasandi.
Gangan hefst við tjaldstæðið á Melanesi og verður gengið sem leið liggur að tóftum bæjarins.
Gangan er innblásin af sögunni Svartfugl, sem fjallar um atburðina á Sjöundá árið 1802.
Við förum aftur í tímann og skoðum þann heim sem sagan sprettur uppúr. Gunnar sagði sjálfur að hann hefði ekki skrifað söguna eins og hún gerðist heldur eins og hún hefði getað gerst og þau orð verða höfð að leiðarljósi.
Landvörður leiðir gönguna og les vel valda kafla úr bókinni sem gefa innsýn í bæði lífið á Sjöundá og tilfinningalíf persónanna sem sagan hverfist um.