Súðavík: framkvæmdir ganga vel á Langeyri

Vegurinn út á landfyllinguna. Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Framkvæmdir ganga vel við nýja hafnaraðstöðu á Langeyri í Álftafirði. Verktakinn Kraninn ehf frá Austurlandi eru að reka niður stálþil og gera 80 metra viðlegugarð. Tilboð Kranans var um 158 m.kr. Tígur ehf er að keyra grjóti í fyllinguna og sá um landfyllinguna.

Að sögn Braga Þórs Thoroddsen, sveitarstjóra er verkið um það bil hálfnað og verklok eru 1. nóvember n.k.

Kostnaður við hafnarframkvæmdirnar er um 650 m.kr. og þar af greiðir sveitarfélagið liðlega helminginn.

Íslenska kalkþörungaverksmiðjan mun hefja framkvæmdir næsta vor við nýja kalkþörungaverksmiðju á landfyllingunni og áformar að gangsetja hana í lok árs 2026.

Sveitarfélagið fær kostnaðinn endurgreiddan með samningi við Íslenska kalkþörungaverksmiðjuna fyrir afnot af hafnaraðstöðunni og landfyllingunni.

Nýja verksmiðjan mun geta framleitt úr um 120 þúsund tonna af kalkþörungum á ári og við hana munu starfa 20 – 30 manns auk afleiddra starfa. Verksmiðjan verður mjög fullkomin og mun kosta 3,5 – 5 milljarða króna.

Byrjað er að reka niður stálþilið.

DEILA