Síðasta opinbera heimsókn forseta innanlands

Forseti með íbúum Árneshrepps. Ljósmynd Una Sighvatsdóttir
Forseti með íbúum Árneshrepps. Ljósmynd Una Sighvatsdóttir

Forseti Íslands fór í opinbera heimsókn í Árneshrepp á Ströndum og kynnir sér þar lífshætti íbúa og sögu. Ferðin stóð í þrjá daga og var þetta síðasta opinbera heimsókn forseta innanlands áður en hann lætur af embætti í lok júlí. Í embættistíð sinni hafa forsetahjónin farið að jafnaði í þrjár opinberar heimsóknir innanlands á ári og þannig heimsótt 22 sveitarfélög, auk tíðra ferða um landið allt af ýmsum öðrum tilefnum.

Árneshreppur er víðfeðmur en um leið eitt fámennasta sveitarfélag Íslands. Eva Sigurbjörnsdóttir oddviti og hreppstjórnin buðu forseta velkominn á hreppamörkunum við fjallið Spena. Þaðan var ekið á sauðfjárbúið Mela í Trékyllisvík þar sem sauðfjárbændurnir Bjarnheiður Júlía Fossdal og Björn Guðmundur Torfason tóku á móti forseta. Sauðfjárrækt hefur löngum verið helsti atvinnuvegur í Árneshreppi en á Melum er fjárhúsið einnig nýtt sem tónleikastaður á sumrin þegar tónlistarhátíðin Nábrókin er haldin þar.

Á föstudagskvöld bauð hreppstjórn til kvöldverðar til heiðurs forseta í félagsheimilinu í Trékyllisvík fyrir alla íbúa sveitarfélagsins. Í ávarpi til Árneshreppsbúa vakti forseti meðal annars máls á því að Árneshreppur hafi undanfarin ár talist til brothættra byggðarlaga, þar hafi yfir 500 manns búið um miðja síðustu öld en við síðustu áramót hafi skráðir íbúar verið 53 talsins.

Sagði forseti ljóst að mikill missir yrði af því ef byggð legðist af á þessum stórbrotna stað: „Öld fram af öld hafa Strandamenn eflt með sér dugnað og dirfsku, enda ekkert annað í boði á þessum slóðum, undir reginfjöllum fyrir opnu hafi.

Á laugardeginum slóst forseti í för með gönguhópi á vegum Ferðafélags Íslands. Haldið var á fjallið Glissu á mörkum Reykjarfjarðar og Ingólfsfjarðar. 

Að lokinni göngu var farið í sjósund fyrir botni Norðurfjarðar og loks í sund í Krossneslaug en 70 ára afmæli laugarinnar var fagnað nú í sumar. Að loknum kvöldverði á Kaffi Norðurfirði efndi Ferðafélag Íslands svo til tónleika í fjárhúsinu í Norðurfirði þar sem Helgi Björnsson kom fram.

Opinberri heimsókn forseta í Árneshrepp lauk í Djúpavík. Þar snæddi forseti hádegisverð í boði hreppstjórnar á Hótel Djúpavík og fékk leiðsögn um sögusýninguna í gömlu síldarverksmiðjunni þar. 

DEILA