Heimastjórnir Arnarfjarðar, Tálknafjarðar, Patreksfjarðar og fyrrum Barðastrandarhrepps og Rauðasandshrepps hafa nú allar tekið til starfa og lokið sínum fyrstu fundum.
Lilja Magnúsdóttir hefur verið ráðinn ritari heimastjórna og hóf hún störf í júní. Hún heldur utan um störf heimastjórna, ritar fundargerðir og fylgir málum þeirra eftir.
Lilja er skógfræðingur að mennt, hefur haldgóða reynslu af sveitarstjórnarmálum, meðal annars sem oddviti sveitarstjórnar Tálknafjarðarhrepps, og hefur starfað í ýmsum ráðum og nefndum.
Heimastjórnir eru fastanefndir innan sameinaðs sveitarfélags sem starfa í umboði sveitarstjórnar. Markmiðið með heimastjórnum er að heimamenn hafi aðkomu að ákvörðunum sem varða nærumhverfi sitt og geta ályktað um málefni sem snýr að viðkomandi byggðarlagi og komið málum á dagskrá bæjarstjórnar. Í hverri heimastjórn eru þrír fulltrúar, tveir sem kosnir eru sérstaklega samhliða sveitarstjórnarkosningum og einn bæjarfulltrúi.