Vikuviðtalið: Nanný Arna Guðmundsdóttir

Ég er fædd á Ísafirði, í ágúst 1970. Foreldrar mínir eru Jónína Sturldutóttir og Guðmundur Gunnar Jóhannesson. Fyrstu mánuði lífs míns bjuggum við mamma hjá ömmu Rebekku og afa Dúlla á Hlíðarvegi 37. Það var mjög fínt því á Hlíðarvegi 35 bjuggu föðuramma mín og afi, þau Steinunn Jóhannesdóttir og Jóhannes Björnsson. Á Hlíðarveginum bjuggu líka nánast allir mínir ættingjar, Jóna langamma frá Horni, Addi og Malla, Sella og Óli, Stígur Stóri og Lilja og Mummi. Hlíðarvegurinn iðaði af lífi á þessum árum, stutt í fjallið og fjöruna og fullt af krökkum sem urðu ævarandi vinir, unglingar sem ég óttaðist og vinkonur ömmu sem kíktu reglulega í kaffi og sígó og spjölluðu um allt og ekkert sem lítil eyru elskuðu að hlusta á.

Í dag á ég tvö foreldrasett, pabbi og konan hans Eva Lillerud búa í Þrándheimi og móðir mín og stjúpfaðir Helgi Jónsson búa á Akureyri og svo á ég tvö yndisleg systkini. Fjölskyldan fluttist til Akureyrar 1982, þá var stjúpfaðir minn alveg búin að fá nóg af faðmi fjalla blárra, enda ættaður af Melrakkasléttu. Ég kláraði „Gaggan“ á Akureyri og hóf nám í MA, sem entist mjög stutt. Mér leið ekki vel á Akureyri. Það var erfitt fyrir unglingsstelpu að komast inn í fullmótaða vinahópa, þekkja hvorki helstu kennileiti né staðhætti og vita ekkert um Þór eða KA. Á sumrin kom á ég heim á Ísafjörð, vann í Íshúsinu fyrst í grálúðu og svo fljótlega komin á bónusborðin að skera úr í akkorði.

Ísafjörður hefur alltaf verið heim og heimili ömmu og afa mitt annað heimili. Hjá þeim fylgdist ég með afa í pólitíkinni en hann var mikill Alþýðuflokksmaður, virkur í Kiwanis og vann á höfninni. Afi vildi ekki stelpur til sjós, alveg sama hvað ég nauðaði í honum um að redda mér sumarplássi þá var það alltaf þvert nei. Ég fékk samt að koma með honum á lóðsbátinn endrum og sinnum og halda í spotta. Amma vann á sjúkrahúsinu hálfan daginn. Hún sagði sjálf að hún væri kommúnisti en föðurfólk mitt er allt meira og minna framsóknarfólk svo ætli það megi ekki segja að ég sé pólitísk samsuða og hef þess vegna fundið mig vel heima í Í-listanum.

Mér hefur alltaf fundist gaman að vinna og nýt mín best í miklu ati. Ég var önnur stelpan til að vinna í Áhaldahúsinu. Þorbirni „Dodda“ fannst nú ekkert tiltökumál að ráða stelpu til starfa og kallarnir þar tóku mér vel. Það var mikill lærdómur fyrir unga stelpu að kynnast öllu þeim verkefnum sem þurfti að leysa úr. Á þessum árum var verið að mæla út fyrir Tunguhverfinu og taka út væntanlega gangnamuna undir Breiðadals- og Botnsheiði auk þess almenn störf eins og að losa skítastíflur, moka skurði til að laga vatnslagnir og leggja gangstéttar. Í áhaldahúsinu kynntist ég líka verðandi tengdaföður mínum.

Ég var á nítjánda ári þegar frumburðurinn minn Örvar Dóri fæddist. Við vorum tvö saman fyrstu fjögur árin. Ég kynntist manninum mínum Rúnari Óla Karlssyni á Ísafirði. Hann er sonur Rannveigar Hjaltadóttur og Karls Geirmundssonar. Við bættum tveimur dætrum í barnahópinn, Regínu Sif og Kolfinnu Írisi. Barnabörnin eru þrjú og tengdabörnin þrjú.

Ég nýt þess að vera úti að leika mér. Ætli ég hafi ekki verið pínu ofvirk sem krakki sem kom ekki að sök þá því börn æsku minnar voru alltaf úti að leika. Það er gott fyrir líkama og sál að vera úti, finna fyrir náttúrunni sem við höfum svo mikið af hér fyrir vestan. Pabbi minn var og er ennþá mikill skíðamaður og smitaði mig af skíðabakteríunni þegar ég var mjög ung. Ég nýt þess að skíða hvort sem það er á gönguskíðum, svigskíðum, fjallaskíðum eða utanbrautraskíðum. Svo hjóla ég, það er nýja sportið. Skemmtilegast er að nota hjólið sem ferðamáta. Hjóla á milli staða, finna ylminn af náttúrunni og skoða landslagið frá nýju sjónarhorni. Ég hef ferðast mikið og reyni alltaf að koma hjólaferðum inni í ferðaplanið. Það má segja að ferðalög séu þriðja áhugamálið mitt. Við hjónin förum á hverju ári í langt haustfrí og veljum lönd þar sem hitastigið er á pari við vestfirskan sumarhita, því við missum svo oft af sumrinu vegna vinnu.

Við hjónin eigum og rekum ferðaþjónustufyrirtækið Borea Adventures. Fyrirtækið sérhæfir sig í afþreyingaferðum hverskonar, í kringum Ísafjörð og á Hornströndum. Við bjóðum upp á kajakferðir, gönguferðir, hjólaferðir, skíðaferðir og ljósmyndaferðir. Þetta geta verið allt frá tveggja tíma ferðum upp í sex daga ferðir. Við erum líka með tvo farþegabáta í rekstri, bátana Sif og Írisi, svo nú er ég með útgerð þó ég hafi aldrei unnið til sjós. Ferðaþjónusta á Vestfjörðum hefur tekið miklum breytingum frá því við byrjuðum. Sumartímabilið hefur lengst, fjölbreytni orðið meiri og framboð á veitingahúsum og gistingu aukist. Í dag byrjar tímabilið hjá okkur í janúar og endar í lok september. Við erum með þrjátíu manns í vinnu yfir hásumarið, en átta í heilsársstörfum. Við leggjum mikla áherslu á að hafa heimafólk í vinnu. Við ráðum stelpur jafnt sem stráka sem leiðsögumenn en það var fáttítt þegar við byrjuðum. Ég ákvað að taka Dodda mér til fyrirmyndar og ráða frekar eftir dugnaði og reynslu, heldur en kyni.

Ferðaþjónusta er vaxandi á Vestfjörðum, umdeild og í stöðugri þróun, enda erum við einstakt landsvæði, ríkt af menninngu, sögu og náttúrufegurð. Umræða um skemmtiferðaskip stingur reglulega upp kollinum, sem ein tegund massatúrisma og hvort Vestfirðir ættu að einbeita sér frekar að næðisferðum þ.e. minni hópum og meiri gæðum. Ég held að þetta geti allt farið saman. Það er að sjálfsögðu nauðsynlegt að hafa stefnu, móta áætlun og horfa til framtíðar. Móttaka skemmtiferðaskipa hjá Ísafjarðarbæ hefur gengið vel, gestirnir eru ánægðir og dreifast víða. Ég hlakka til að halda áfram að taka þátt í að móta stefnu fyrir Ísafjarðarbæ hvort sem það er sem ferðaþjónn, íbúi eða pólitíkus.

Hér á ég heima og hér vil ég vera.

DEILA