Mast: allt að 5.196 eldisfiskar sluppu í Öxarfirði

Eldisstöð Samherja í Öxarfirði. Mynd: Bændablaðið.

Niðurstöður Matvælastofunar eru að allt að 5.196 eldisfiskar hafi sloppið úr landeldi Samherja í Öxarfirði, en talið er að atvikið hafi átt sér stað 2. maí þegar vatnsyfirborð hækkaði í seiðakari með þeim afleiðingum að fiskur sogaðist út um yfirfallsop og yfir í frárennsliskassa. Seiðin voru u.þ.b. 70-80 gr. og ósmoltuð. Ekki var hægt að útiloka að seiðin hafi smoltast í settjörn og komist út í sjó. Samkvæmt upplýsingum frá rekstraraðila fundust 868 seiði utan kers en óljóst var á þeim tímapunkti hversu mörg seiði struku í heild.

Í kjölfar tilkynningarinnar tók Matvælastofnun málið til rannsóknar og óskaði eftir frekari upplýsingum frá rekstrarleyfishafa meðal annars um aðgerðir hans við endurheimt þeirra seiða sem sluppu og nánari upplýsingum um fjölda þeirra. Rekstrarleyfishafi brást við og hóf veiðar í settjörn en Matvælastofnun hefur ekki fengið staðfest að öll seiði hafi náðst úr settjörninni.

Í tilkynningu Matvælastofnunar í dag segirað við rannsókn málsins hafi komið í ljós að rekstraraðili gat ekki gert grein fyrir 5.196 fiskum og dregur Matvælastofnun þá ályktun að það sé sá fjöldi seiða sem mögulega hafi smoltast í settjörn og strokið út í sjó.

Matvælastofnun setti alvarleg frávik í eftirlitsskýrslu sem birt hefur verið á mælaborði fiskeldis á heimasíðu stofnunarinnar þar sem ljóst er að fiskeldisstöðin var ekki útbúin eldisbúnaði sem var nægjanlega fiskheldur. Þá var fiskeldisstöðin ekki útbúin nægjanlega fínofnum netum til að fanga þau seiði sem struku úr stöðinni. Matvælastofnun mun hafa eftirlit með að unnið hafi verið úr alvarlegum frávikum.

DEILA