Hjúkrunarheimili: áforma að fella brott 15% greiðslu sveitarfélaga

Hjúkrunarheimilið Eyri á Ísafirði. Það er fyrirhuguð 10 rúma viðbygging.

Birt hafa verið til umsagnar í samráðsgátt áform heilbrigðisráðherra um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu sem fellir brott skyldu sveitarfélaga til að greiða 15% stofnkostnaðar við uppbyggingu hjúkrunarheimila.

Í tilkynningu heilbrigðisráðuneytisins segir að þetta sé liður í því að hrinda í framkvæmd ákvörðun heilbrigðisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra um að taka upp nýtt og skilvirkara fyrirkomulag við öflun húsnæðis fyrir hjúkrunarheimili sem kynnt var í byrjun þessa árs.

Með fyrirhuguðum breytingum er gert ráð fyrir að ríkið sjái alfarið um öflun húsnæðis undir rekstur hjúkrunarheimila í gegnum leigusamninga við fasteignafélög og aðra sérhæfða aðila á grundvelli útboða. Samkvæmt gildandi fyrirkomulagi standa ríki og sveitarfélög saman að byggingu húsnæðis fyrir hjúkrunarheimili. Ríkið greiðir að jafnaði 85% stofnkostnaðar á móti 15% framlagi sveitarfélags að lágmarki og leggur sveitarfélagið jafnframt til lóð og ber kostnað af nauðsynlegri gatnagerð. Undanfarin ár hafa orðið töluverðar tafir á framkvæmdum við byggingu nýrra hjúkrunarheimila. Markmiðið með nýju fyrirkomulagi er að liðka fyrir uppbyggingu og tryggja fullnægjandi viðhald á þeim eignum sem nýttar eru undir þessa mikilvægu almannaþjónustu.

Nýja fyrirkomulagið byggir á því að ríkið hætti að byggja fasteignir undir hjúkrunarheimili á eigin reikning í samstarfi með sveitarfélögum. Þess í stað verði tekið upp leigufyrirkomulag þar sem fasteignafélögum og öðrum sérhæfðum aðilum verði gefið tækifæri til að byggja og reka fasteignir hjúkrunarheimila á grundvelli útboða sem leiði til hagstæðustu útkomu fyrir ríkið – að teknu tilliti til gæða og kostnaðar.

Frestur til að skila umsögnum um framangreind áform er til 27. júlí næstkomandi.

DEILA