Veiðar á rjúpu verða svæðisbundnar

Mynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Umhverfisstofnun hefur birt drög að stjórnunar- og Verndaráætlun rjúpu. Þetta er í fyrsta skipti sem slík áætlun er gefin út fyrir dýrastofn á Íslandi.

Áætlunin er afrakstur samstarfs Umhverfisstofnunar, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis, Náttúrufræðistofnunar, SKOTVÍS og Fuglaverndar. Samstarfshópurinn fékk einnig aðstoð frá Dr. Fred A. Johnson, bandarískum sérfræðingi í veiðistjórnun og stofnlíkanagerð.

Í áætluninni er nýtt kerfi veiðistjórnunar kynnt, en í því felst meðal annars að veiðistjórnun verður svæðisbundin þar sem landinu er skipt í sex hluta. Auk þess hafa ný stofnlíkön hafa verið þróuð sem munu reikna út ákjósanlega lengd veiðitímabils á hverju svæði.

Áætlunin er mikilvægur liður í því að stuðla að því að veiðar séu sjálfbærar og að rjúpnastofninn haldi sínu hlutverki sem lykiltegund í sínu vistkerfi. Enn fremur er markmiðið með áætluninni að stuðla að gagnsæi, fyrirsjáanleika og skilvirkni veiðistjórnunar á rjúpu svo traust ríki á milli opinberra stofnana, hagsmunaaðila og almennings.

Um miðjan júlí mun Umhverfisstofnun senda tillögur að rjúpnaveiðitímabili 2024 til umhverfis- orku- og loftstlagsráðuneytis sem verða byggðar á áætluninni og nýju stofnlíkönunum.

DEILA