Akranes – 58% fjölgun á 26 árum

Íbúaþróun á Akranesi 1998 - 2024. Íbúum fjölgaði um 58%. Heimild: Hagstofa Íslands.

Íbúum í Akraneskaupstað hefur fjölgað frá 1998 til 2024 úr 5.125 í 8.071 manns miðað við 1. janúar ár hvert samkvæmt tölum Hagstofu Íslands.

Er það töluvert umfram fjölgun landsmanna á sama tímabili.

Íbúar á landinu voru 1. janúar 1998 272.381 en voru um síðustu áramót orðnir 383.726. Fjölgunin er 41%. Íbúafjölgunin á þessum 26 árum er algert einsdæmi í sögunni vegna þess hve mikil hún hefur verið. Engu að síður hefur fjölgunin á Akranesi verið enn meiri eða 58%.

Ísafjörður – 9,5% fækkun

Á Ísafirði, þ.e. þéttbýlinu í Skutulsfirði, hefur á sama tíma íbúum fækkað um 9,5%. Þeir voru 2.960 í ársbyrjun 1998 en 2.679 um áramótin síðustu samkvæmt tölum Hagstofunnar. Ef íbúum á Ísafirði hefði fjölgað eins og á Akranesi hefði þeir verið 4.662 þann 1. janúar sl. eða um 2.000 fleiri en þeir voru.

Línurit sem sýnir íbúaþróun á Ísafirði 1998 – 2024. Heimild: Hagstofa Íslands.

DEILA