Vestri: jafntefli gegn Breiðablik á Kerecis vellinum

Frá leiknum á laugardaginn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Knattspyrnulið Vestra lék sinn þriðja heimaleik á Kerecis vellinum á Torfnesi og náði í sitt fyrsta stig gegn liði Breiðabliks sem er í toppbaráttunni í Bestu deildinni. Leiknum lauk 2:2, þar sem jafnt var í hálfleik, hvort lið hafði skorað eitt mark.

Vestri átti góðan leik og var betra liðið í fyrri hálfleik. Breiðablik fékk dæmda vítaspyrnu snemma í leiknum og tók forystuna með marki úr henni. Var það afar strangur dómur svo ekki sé meira sagt. Eftir það var Vestri betra liðið og Sergine Fall jafnaði skömmu síðar. Í seinni hálfleik var nokkurt jafnræði með liðunum og Blikarnir áttu betri spretti en í fyrri hálfleik. Þeir náðu forystunni aftur með góðu skallamarki eftir aukaspyrnu en þá kom aukinn kraftur í Vestramenn og Benedikt V. Warén jafnaði leikinn öðru sinni eftir fyrirgjöf frá Sergine Fall.

Eftir leikinn er Vestri í 11. sæti með 11 stig, jafnmörg og KA í 10. sætinu en Akureyringarnir eiga þó leik til góða.

Vestri sýndi ágætan leik gegn liðinu í þriðja sæti deildarinnar og staðfestu að þeir eiga fullt erindi í Bestu deildina. Aðeins þrjú stig eru upp í liðið í 8. sæti, KR og framundan er spennandi keppni milli nokkurra liða um að halda sæti sínu í deildinni.

DEILA