Vesturbyggð: hafnar auglýsingaskiltum á Patreksfirði

Horft yfir svvæðið þar sem Vélsmiðjan Logi er en þar var óskað eftir heimild fyrir staðdetningu á auglýsingaskilti. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Heimastjórn Patreksfjarðar hefur haldið sinn fyrsta fund. Meðal mála sem fyrir voru tekin var erindi frá veitingastaðnum Skútinn – kaffi sem óskaði eftir því að fá að setja upp tvö auglýsingaskilti Skútann – kaffi annars vegar við gatnamót Aðalstrætis og Strandgötu/Þórsgötu og hins vegar neðan við Strandgötu við þvottaplan og ofan við Strandgötu við Mikladalsá.

Erindið var fyrst lagt fyrir skipulags- og framkvæmdaráð Vesturbyggðar sem lagðist gegn erindinu og benti á upplýsingasvæði innan við kirkjugarðinn fyrir skiltið að höfðu samráði við Vegagerðina með þeim rökum að umbeðnar staðsetningar gætu komið til með að trufla umferðaröryggi.

Heimastjórn Patreksfjarðar tók undir afstöðu ráðsins og hafnaði erindinu þar sem staðsetningarnar kunna að hafa áhrif á umferð gangandi vegfarenda og umferðaröryggi.

Heimastjórn Patreksfjarðar leggur til við bæjarráð að unnar verði reglur fyrir þéttbýli í Vesturbyggð um uppsetningu auglýsingaskilta, staðsetningar þeirra, stærð og útlit.

Kort sem ýnir mögulega staðsetningu skiltis við Vélsmiðjuna Loga.

DEILA