Sævangur: Fjölskylduhátíð í náttúrunni

Frá fyrri náttúrubarnahátíð á Sævangi.

Fjölbreytt útivist, náttúrutúlkun, tónlist, fróðleikur og fjör einkenna dagskránna á Náttúrubarnahátíð á Ströndum sem haldin verður 12. – 14. júlí næstkomandi á Sauðfjársetrinu í Sævangi, rétt sunnan við Hólmavík.

Náttúrubarnahátíð er fjölskylduhátíð sem fer að mestu fram utandyra og gefur þátttakendum tækifæri til að finna og rækta náttúrubarnið í sér. Í upphafi hátíðarinnar er framkvæmdur veðurgaldur sem, samkvæmt Dagrúnu Ósk Jónsdóttur þjóðfræðingi og stjórnanda hátíðarinnar, tryggir sól og blíðu alla helgina.

Líkt og undanfarin ár er ókeypis að taka þátt í hátíðinni og viðburðum á henni, en hátíðin er styrkt af Uppbyggingasjóði Vestfjarða og Orkubúi Vestfjarða. Það er einnig frítt fyrir hátíðargesti að gista í tjaldi hjá gistihúsinu Kirkjubóli sem er rétt hjá Sævangi, en þar er þó ekki eiginlegt tjaldstæði og ekki aðgangur að rafmagni. Það er hins vegar frábært tjaldsvæði á Hólmavík þar sem er rafmagn og líka ýmsir gististaðir í nágrenninu.

Veitingasala er á Sauðfjársetrinu (Kaffi Kind) alla helgina og er þar nóg úrval af allskonar réttum bæði fyrir grænkera og aðra.

Dagskrá hátíðarinnar má sjá hér fyrir neðan:

Föstudagur 12. júlí
17:30 Fjölskyldu gönguferð í fjörunni
18:30 Setning hátíðarinnar og veðurgaldur
18:30 Hægt að kaupa súpu og grillaðar pylsur (grænmetis og ekki) í Sævangi
19:00 Með vindinum liggur leiðin heim: Mögnuð brúðuleikhússýning með Handbendi
20:00 Æsispennandi Náttúrubarnakviss

Laugardagur 13. júlí
12:00 Náttúrujóga
13:00 Stórskemmtileg töfrasýning með Jóni Víðis töframanni
13:30 Náttúrufjör: Bogfimi, hestar, eldsmiðja, kajakar, tilraunastofan, náttúrubingó, furður náttúrunnar skoðaðar með Náttúruminjasafni Íslands, grillaðar pylsur og fleira
15:00 Náttúrukórónusmiðja með Þykjó
16:30 Rykmýsóróar með Náttúruminjasafni Íslands
18:00 Fuglafjör: Trítlað um teistuvarpið
18:00 Hægt að kaupa grillaðar pylsur og súpu
20:00 Fjölskyldutónleikar með Gunna og Felix
21:00 Drauga- og tröllasögur í Sagnahúsinu

Sunnudagur 14. júlí
11:00 Núvitundarævintýri
12:00 Vísinda Villi með magnaða vísindasýningu
13:00 Spennandi villijurtasmiðja með Arfistanum
15:00 Fjölskylduplokk

DEILA