Norsk stjórnvöld buðu upp í síðasta mánuði heimildir til þess að ala liðlega 17 þúsund tonn af eldisfiski, laxi, silungi og regnbogasilungi. Sextán norsk fyrirtæki keyptu heimildir og greiddu fyrir nærri 69 milljarða íslenskra króna sem gerir nærri 4 m.kr. íslenskra króna fyrir hvert tonn af framleiðsluheimildum.
Þetta kemur fram i frétt á norska vefnum Intra Fish.
Um er að ræða eignarréttindi eða varanlega sölu.
Um 55% teknanna renna til sveitarfélaga og fylkjanna í gegnum sjóðinn Havbruksfond.
Í Noregi gilda þær reglur að unnt er að auka framleiðsluna ef ástand er gott á framleiðslusvæði, svo sem lítil vandamál vegna lúsar. Er þá aukningin boðin upp. Frá 2018 hefur fjórum sinnum verið efnt til uppboðs, eða annað hvert ár. Samtals hafa framleiðsluleyfi fyrir 93 þúsund tonn verið seld í uppboðunum sem er um 6% af framleiðslu Norðmanna á eldislaxi. Eldisfyrirtækin hafa samtals greitt um 20 milljarða norskra króna fyrir leyfin, sem jafngildir um 360 milljarða íslenskra króna eða að meðaltali tæplega 4 milljónir íslenskra króna fyrir hvert tonn.
Fjögur stór fyrirtæki hafa keypt um helming allra uppboðinna heimilda. Eru það SalMar, Mowi, Cermaq og Eidsfjord Sjøfarm, en það síðastnefnda er umsvifamikið í veiðum og vinnslu á hvítfisk. Kvóti á þorski hefur síðustu árin verið skorinn niður og horfur eru á að það haldi áfram. Fyrirtækið er því að færa sig yfir í eldið. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins segir verðið vera of hátt og það muni draga úr uppbyggingunni í laxeldinu.