Dynjandisheiði: klæðning á nýjum vegarköflum – vegfarendur sýni tillitssemi

Unnið að vegagerð á Dynjandisheði í lok febrúar 2024. Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Suðurverk ehf er að hefja þessa dagana klæðningu á töluverðum kafla Vestfjarðavegar um Dynjandisheiði. Til stendur að leggja í þessum áfanga, seinna lag klæðningar frá Norðdalsá og niður í Vatnahvilft annars vegar og bæði lög þaðan og langleiðina að sýslumörkum hins vegar. Samtals eru þetta rúmir 6km af undirlagi og rúmir 9,5km af yfirlögn.

Fyrirtækið biðlar til vegfarenda að sýna aðgæslu og hægja á umferð á meðan á framkvæmdum stendur:

„Á þessum kafla erum við með umferðina á okkur meðan fínjöfnun og klæðing á sér stað og þá er gríðarlega mikilvægt að halda umferðarhraða niðri á meðan öllu þessu stendur.

Hraðakstur stefnir fyrst og fremst fólkinu okkar og öðrum vegfarendum í hættu.

Hraðakstur skapar líka aðskilnað í jöfnunarlaginu undir klæðingunni og losar steinana í nýlagðri klæðingu sem kemur mjög niður á gæðum vegarins. Í allri umræðu um bundin slitlög og skiptar skoðanir á þeim efnum sem eru og hafa verið notuð við gerð þeirra, þá vill þessi mikilvægi þáttur gleymast við nýbyggingu og viðhald vega.

Við viljum því biðla til þeirra sem þurfa að fara þessa leið á næstunni að sýna þolinmæði, fara afar gætilega og virða hraðatakmarkanir bæði á meðan þessu stendur og fyrstu dagana / vikurnar í kjölfarið. Okkar vegna, mannvirkisins vegna og ykkar vegna sem komið vonandi til með að nýta þennan veg í framhaldinu.“

DEILA