Vestfjarðastofa annast sumarviðburðasjóð Ísafjarðarhafna

Norwegian Prima var í Ísafjarðarhöfn um daginn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Ísafjarðarbær hefur samið við Vestfjarðastofu um umsjón með Sumarviðburðasjóði Ísafjarðarhafna í ár. Umsjón sjóðsins fellst m.a. í auglýsingu umsókna um styrki í sjóðinn að vori, móttöku og skráningu umsókna, vinnslu mála fyrir úthlutunarnefnd sjóðsins, meðferð samninga og samskipti við umsækjendur og/eða málsaðila, útgreiðslu styrkja, móttöku greinargerða og gagna styrkþega í lok tímabils, og innheimtu styrkja sem krefjast endurgreiðslu, auk könnunar að hausti meðal styrkþega og íbúa um verkefnið.

Ísafjarðarbær greiðir Vestfjarðastofu í þjónustugjöld kr. 500.000 fyrir umsjónina.

Sjóðurinn var stofnsettur fyrr á árinu og hefur 5 m.kr. til ráðstöfunar.

Markmiðið með sjóðnum er að styrkja og bæta bæjarbraginn í tengslum við skemmtiferðaskipakomur, þar sem áhersla er lögð á að efla menningu og mannlíf. Styrkjum er úthlutað til einstakra viðburða, eða raða viðburða.

Helstu skilyrði fyrir styrkveitingu;

  • Viðburðir skulu haldnir á tímabilinu maí til september
  • Viðburðir skulu vera þátttakendum/áhorfendum að kostnaðarlausu
  • Viðburðir sem haldnir eru á milli klukkan 10:00 og 15:00 njóta forgangs
  • Hægt er að sækja um styrk að hámarki 1.000.000 kr.

DEILA