Kvennaskólinn í Reykjavík, Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ og Menntaskólinn á Ísafirði munu bjóða upp á nýjar íslenskubrautir í haust. Ætlunin er að auka námsframboð fyrir nemendur með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn.
Markmið brautanna er að þjálfa nemendur í íslensku máli, menningarfærni og stuðla að félagslegri vellíðan og virkri þátttöku þeirra í samfélaginu. Um tveggja ára nám er að ræða. Við lok náms eiga nemendur að vera undirbúnir fyrir nám í íslenskum framhaldsskólum og búa yfir íslenskukunnáttu sem nýtist jafnt í námi sem og á vinnumarkaði.
Samhliða auknu námsframboði framhaldsskóla fyrir nemendur með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn mun stuðningur við skóla stóraukast með verkefninu Menntun Móttaka Menning (MEMM)
Í gegnum MEMM verkefnið verður byggður upp stuðningur við framhaldsskóla varðandi móttöku og menntun nemenda af erlendum uppruna og lögð áhersla á ráðgjöf, fræðslu og aðgengi að námsefni og gagnlegum verkfærum. Markmiðið er að samræma verklag og byggja upp þekkingu og færni meðal annars með því að nýta þá þekkingu sem skapast hefur á þessu sviði innan sveitarfélaga, framhaldsskóla og fræðasamfélagsins.