Háafell: 2 milljarðar kr. í uppbyggingu á Nauteyri

Frá Nauteyri. Mynd: Háafell.

Uppbyggingin á landeldisstöð Háafells að Nauteyri hefur staðið í nokkur ár, fyrst með endurnýjun á öllum helsta búnaði í gömlu stöðinni og síðan með nýframkvæmdum sem hófust maí í fyrra. Gauti Geirsson, framkvæmdastjóri Háafellssegir að um sé að ræða nýtt seiðaeldishús, sjódælustöð, varaaflstöð og hreinsistöð auk þess sem Orkubú Vestfjarða reisti nýja spennistöð við Nauteyri.

Heildarkostnaður Háafells hingað til eru tæplega tveir milljarðar en strax er byrjað að leggja drög að næsta seiðaeldishúsi sem mun verða í framkvæmd næsta eitt og hálfa árið.

Gauti segir að allar þessar framkvæmdir séu liður í stefnu Háafells að verða sjálfbær um framleiðslu hraustra seiða. „Með auknu eldisrými og plássi gefst ennfremur tækifæri til þess að stækka stærð seiðanna sem fara í sjó og þannig stytta eldistíma þeirra í sjónum. Við stefnum að því að formleg opnun verði í lok sumars á nýja seiðaeldishúsinu.“

DEILA