Hvalárvirkjun: landsréttur hafnar landakröfum Drangavíkur

Landamerki Drangavíkur sem Héraðsdómur og Landsréttur hafa dæmt rétt.

Í gær féll dómur í Landsrétti í máli sem  eigendur 74,5% hluta Drangavíkur höfðuðu á hendur eigendum jarðanna Engjaness, Ófeigsfjarðar og Laugalands og sameigendum sínum að jörðinni Drangavík, sem saman áttu 25,5% hluta Drangavíkur, auk þess að stefna til réttargæslu eiganda jarðarinnar Dranga og íslenska ríkinu sem fer með yfirráð þjóðlendu á austanverðum Drangajökli.

Kröfðust þeir að landamerki milli jarðanna Engjaness og Drangavíkur yrðu með tilteknum hætti þannnig að land Drangavíkur yrði mun stærra en þaður hafði verið talið. Héraðsdómur Vestfjarða hafnaði kröfunum og áfrýjuðu stefnendur, þó að frátöldum þremur þeirra, málinu til Landsréttar. Landsréttur staðfesti dóm héraðsdóms frá 5. júlí 2022 og dæmdi stefnendur til þess að greiða samtals 7,2 m.kr. í málskostnað.

Kort sem sýnir kröfu þeirra sem höfðuðu málið fyrir dómstólum og Landsréttur féllst ekki á.

Undirtónninn í málaferlunum er Hvalárvirkjun en ef landakröfur stefnenda hefðu verið teknar til greina hefðu vatnsréttindin fylgt með og fyrirliggjandi samningar Vesturverks við landeigendur um virkjun vatnsfallanna hefðu verið í uppnámi.

Niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur og nú Landsréttar er í samræmi við það sem lögmaður eiganda Engjaness, Felix von Longo-Liebenstein sagði í viðtali við Bæjarins besta þann 27.6. 2019 að hann hefði ekki stórar áhyggju af þessum landakröfum. Lögmaðurinn sagðist ekki geta lesið þetta út  landamerkjabréfum. Hann sagði að kröfurnar komi eins og skrattinn úr sauðaleggnum. Það hafi aldrei verið ágreiningur við nokkurn mann um landamerkin milli jarðanna.

DEILA