Ísafjörður: Knattspyrnumaðurinn Björn Helgason heiðraður í gær

Birnir Helgasyni veitt viðurkenningin. Hann fékk m.a Vestra treyju.

Fyrir leik Vestra gegn Fram í gær á Kerecis vellinum á Torfnesi var athöfn þar sem Ísfirðingnum Birni Helgasyni var þakkað fyrir sitt ómetanlega framlag til Íslenskrar knattspyrnu.

Það voru Vestri, ÍBÍ og Knattspyrnufélagið FRAM sem stóðu fyrir athöfninni.

Vestramaðurinn Sindri Kristinsson flutti þakkarorð og sagði m.a. eftirfarandi:

Það er okkur Vestrafólki ÍBÍ og Framörum ljúft og gott að hitta hér fyrir Björn Helgason knattspyrnumann að vestan. 

 Björn, Vestri, ÍBÍ, og Fram hafa bundist órjúfanlegum böndum í gegnum tíðina.

 Björn er fyrsti landsliðsmaður Ísafjarðar í knattspyrnu, en hann lék tvo landsleiki á árunum 1959-1963, en á þessum árum voru ekki margir landsleikir árlega.

 Fyrst lék Björn sem leikmaður Íþróttabandalags Ísafjarðar, ÍBÍ, í landsliði Islands, gegn Noregi í Ósló 1959, þá 24 ára. Síðan sem leikmaður Fram í landsliði Íslands gegn Ólympíuliði Bretlands árið 1963. 

 Þá var Björn varamaður í þremur landsleikjum. Fyrst í sögufrægum leik gegn Dönum í Kaupmannahöfn 1959, 1:1.Síðan gegn áhugamannalandsliði Englands 1961 og Ólympíuliði Bretlands 1963. 

 Björn lék síðan með landsliði Íslands gegn Færeyingum í Þórshöfn 1959. Hann skoraði tvö mörk í sigurleik, sem endaði 5:2. 

 Björn kynntist fjórum leikmönnum Fram í ferðinni til Færeyja; Guðmundi Óskarssyni, Ragnari Jóhannssyni, Baldri Scheving og Grétari Sigurðssyni. 

 Það varð stór þáttur í því að Björn gekk til liðs við Íslandsmeistara Fram (1962) þegar hann dvaldist í Reykjavík 1963.

Björn var Landsliðsmaður Íslands með tveimur félögum. 

 Björn á það sögulega afrek og varð fjórði knattspyrnumaðurinn til að leika landsleik sem leikmaður með tveimur félögum.  

 Hinir þrír voru: Ríkharður Jónsson, Fram og ÍA. Helgi Daníelsson, Valur og ÍA. Albert Guðmundsson, Valur og Íþróttabandalag Hafnarfjarðar. 

Í leiknum sjálfum veitti Fram betur og skoruðu þeir þrjú mörk en Vestri eitt.

Liðin komin á völlinn í blíðviðrinu á Ísafirði. Framarar til vinstri í bláum treyjum og Vestri til hægri í hvítum.

Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

DEILA