Byggðakvóti: Ísafjarðarbær samþykkir ráðstöfun á Suðureyri og Þingeyri

Þingeyrarhöfn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar veitti umsögn sína í síðustu viku um tillögur Byggðastofnunar um ráðstöfun byggðakvóta til næstu sex fiskveiðiára.

Aflamarksnefnd Byggðastofnunar leggur til að gengið verði til samninga við Íslandssögu hf. og samstarfsaðila um nýtingu á allt að 500 þorskígildistonnum á ári á grundvelli umsóknar þeirra til næstu sex fiskveiðiára að fenginni umsögn viðkomandi sveitarfélags.

Í umsögn bæjarstjórnar um byggðakvóta Suðureyrar segir að Ísafjarðarbær samþykkir tillögu aflamarksnefndar Byggðastofnunar um að semja við Fiskvinnsluna Íslandssögu hf. og samstarfsaðila, enda eini umsækjandinn. „Þá hefur starfsemi
félagsins á Suðureyri verðið með ágætum síðustu ár, allt frá síðustu úthlutun aflamarks, og telur Ísafjarðarbær ekkert í gögnum málsins gefa tilefni til athugasemda að sinni hálfu.“

Varðandi Þingeyri er lagt til að áfram verði samið við Íslenskt sjávarfang ehf og samstarfsaðila þess.

Ísafjarðarbær samþykkti tillögu aflamarksnefndar Byggðastofnunar um að semja við Íslenskt
sjávarfang ehf. og samstarfsaðila, enda eini umsækjandinn með sömu ummælum og á Suðureyri: „Þá hefur starfsemi Íslensks sjávarfangs á Þingeyri verðið með ágætum síðustu ár, allt frá síðustu úthlutun aflamarks, og telur Ísafjarðarbær ekkert í gögnum málsins gefa tilefni til athugasemda að sinni hálfu.“

DEILA