Kanada: vilja meira laxeldi á austurströndinni

Margaret Johnson, sjávarútvegsráðherra New Brunswick.

Á austurströnd Kanada sækjast stjórnvöld eftir auknu laxeldi og hvetja fyrirtæki til frekari fjárfestingar í fiskeldi. Þetta er haft eftir Margaret Johnson, sjávarútvegs- og fiskeldisráðherra í fylkinu New Brunswick. Hún segir stjórnvöld í fylkinu haft ávallt stutt laxeldið og bendir á löggjöf og regluverk sem sett hafa verið því til stuðnings.

Frá árinu 2018 hafa norsku fyrirtækin Grieg Seafood og Mowi aukið starfsemi sína á Atlantshafsströnd Kanada. Samkvæmt því sem fram kemur á vefnum IntraFish.com eru góð skilyrði til eldis undan ströndum fylkisins og einnig er stutt á mikilvæga markaði fyrir afurðirnar.

Grieg Seafood slátraði í fyrra fyrstu kynslóð af eldislaxi sem alin var í Placentia Bay  á Nýfundnalandi og fékk um 5.000 tonn. Áætlað er að auka framleiðsluna upp í 15.000 tonn eftir tvö ár og enn frekar upp í 65.000 tonn síðar.

Mowi framleiddi í fyrra 5.574 tonn af eldislaxi á austurströndinni.

Fresta lokun á vesturströndinni

Á vesturströnd Kanada hafa stjórnvöld í Bresku Kólombíu frá 2019 stefnt að því að banna laxeldi í sjó í opnum kvíum. Í síðustu viku tilkynnti sjávarútvegsráðherra Kanada Diane Lebouthillier um fimm ára frestun á gildistöku bannsins. Verða leyfi sem renna út á þessu ári framlengd til næstu fimm ára til 30. júní 2029. Þá áforma stjórnvöld að veita leyfi til níu ára fyrir eldi í lokuðum kvíum – closed-containment systems – og hvetja þannig til eldis á þann hátt.

Eldisfyrirtæki í fylkinu gagnrýndi þessa ákvörðun samkvæmt frétt IntraFish.com. Meðal þeirra eru Grieg Seafood og Mowi sem eru með eldi á vesturströndinni. Grieg Seafood sagði í yfirlýsingu að þessi stefna myndi stöðva alla fjárfestingu í greininni í Bresku Kólombíu en sögðust bíða frekari frétta af útfærslu stefnumörkunarinnar. Mowi lýsti yfir vonbrigðum og segja að þessi stefna byggi ekki á vísindalegum grunni. Mowi er með 46 leyfi í fylkinu og framleiddi í fyrra 19.000 tonn. Þriðja stóra fyrirtækið í laxeldi í fylkinu er Cermaq. Forstjóri þess segir að þessi stutti leyfistími komi í veg fyrir fjárfestingu í greininni og vísar hann til þess að leyfistími í öðrum löndum sé frá 25 árum upp í varanleg leyfi.

Samtök eldisfyrirtækja í Kanada lýstu ákvörðun Lebouthillier sem óábyrgri, óraunhæfri og óframkvæmanlegri.

Frá 2020 hefur fiskeldi í Bresku Kólombíu dregist saman um 40%.

Diane Lebouthillier lengst til vinstri.

DEILA