Engar vísbendingar um fuglainflúensu

Engar vísbendingar eru um að fuglainflúensa hafi borist með farfuglum til landsins í vor og smit í villtum fuglum með skæðu afbrigði H5N5 virðist hafa fjarað út. Því er óvissustigi vegna fuglainflúensu aflétt. Litlar líkur eru á smiti í villtum fuglum.

Það sem af er ársins, hafa sýni verið rannsökuð úr 42 fuglum af 16 fuglategundum sem fundust veikir eða dauðir víðsvegar á landinu. Öll sýnin voru neikvæð. Því eru taldar litlar líkur á fuglainflúensu í villtum fuglum um þessar mundir.

Þó er mikilvægt að halda áfram vöktun nú í sumar þegar ungfuglar komast á legg, sem geta verið næmari fyrir sýkingu. Ekki er heldur útilokað að smit berist til landsins í haust með farfuglum sem koma frá varpstöðvum sínum á norðlægari slóðum og því ítrekar Matvælastofnun beiðni til almennings um að tilkynna til stofnunarinnar um fund á veikum eða dauðum villtum fuglum. 

DEILA