Fasteignir Ísafjarðarbæjar: tap 49 m.kr. – skuldir 1 milljarður króna

Tap varð af rekstri Fasteigna Ísafjarðarbæjar ehf á síðasta ári um 49 m.kr. Er það verulegur viðsnúningur frá fyrra ári þegar hagnaður varð um 35 m.kr. Staðan versnaði því um 84 m.kr. milli ára. Mestu munar um minni hagnað af sölu eigna. Í fyrra varð hann 57 m.kr. en hafði verið árið 2022 mun meiri eða 123 m.kr.

Þá varð veruleg hækkun á rekstrarkostnaði íbúða. Hann varð 83 m.kr. í fyrra og hækkaði um 29 m.kr. Einkum er það liðurinn viðhald og rekstur sem hækkar, varð 47 m.kr. en hafði árinu áður verið 20 m.kr.

Þessir tveir liðir skýra að mestu breytinguna á afkomu félagsins milli ára. Þriðji liðurinn sem tekur nokkrum breytingum milli ára er þátttaka í sameiginlegum kostnaði Ísafjarðarbæjar sem hækkar um 4 m.kr. og var 17 m.kr. en hafði verið 13 m.kr. 2022.

Að frátöldum bókfærðum hagnaði af sölu íbúa er rekstur félagsins með um 100 m.kr. tapi á ári síðustu tvö ár.

Skuldir félagsins eru 1 milljarður króna og eigið fé er neikvætt um 534 m.kr.

Bæjarráð bókaði á mánudaginn um ársreikninginn að rekstur Fasteigna Ísafjarðarbæjar hafi verið „þungur um árabil og er það stefna bæjaryfirvalda að minnka umfang rekstarins. Stór viðgerðarverkefnni vegna myglu setja mark sitt á ársreikning síðasta árs.“

Í stjórn Fasteigna Ísafjarðarbæjar ehf eru Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri, sem er formaður. Auk hennar eru bæjarfulltrúarnir Nanný Arna Guðmundsdóttir og Kristján Þór Kristjánsson í stjórn. Stjórnarmenn fá ekki greitt fyrir fundasetu.

DEILA