Teistu talningar í Vigur og Æðey

Á fyrstu tveimur vikum maímánaðar lauk Náttúrustofa Vestfjarða þriðju árlegu athuguninni á teistubyggðum í Vigur. Í ár var Æðey einnig bætt við vöktunarverkefnið sem hófst árið 2022 og voru fjórar talningar framkvæmdar í Vigur og tvær í Æðey. 

Í Vigur er að öllum líkindum stærsti varpstofn teistu á landinu með að hámarki 779 pör þetta árið. Þrátt fyrir að talan hafi minnkað eilítið frá þeim 835 pörum sem sáust í fyrra gæti munurinn einnig orsakast af náttúrulegu fráviki í mætingu fuglanna. Þekkt er að meðal annars geti veður og tímasetning sjávarfalla haft áhrif á mætingu teistanna. Búast má við dálitlum sveiflum í langtíma vöktunarverkefnum en eftir lengri tíma mun það koma í ljós hvort stofninn sé stöðugur, í vexti eða hvort fækkun sé í honum.  

Í Æðey var einnig töluverður fjöldi teista eða um 667 pör en árið 2000 var áætlað að um 500 pör væru í eyjunni. Ísafjarðardjúp, með svo stóra varpstofna í eyjunum tveimur, er því augljóslega ákaflega mikilvægt fyrir teistur á landinu.

Tegundin er á Válista íslenskra fugla sem tegund í hættu vegna marktækrar fækkunar síðustu áratugi.  

DEILA