Vestri: gervigrasvöllurinn vígður á morgun

Á morgun fer fram á nýja Kerecis gervigrasvellinum á Torfnesi á Ísafirði fyrsti leikurinn. Það er knattspyrnulið Vestra í Bestu deildinni, sem ríður á vaðið og mætir stjörnum prýtt lið Vals og hefst leikurinn kl 14.

Eftir þessu hefur lengi verið beðið. Það eru liðlega 40 ár síðan Ísfirðingar áttu síðast lið í efstu deild og leikurinn á morgun verður fyrsti heimaleikur Vestra í Bestu deildinni í ár.

Tíu umferðum er lokið á deildinni og er leikurinn á morgun liður í 11. umferð. Þrátt fyrir erfiðar aðstæður á Ísafirði og skakkaföll vegna meiðsla leikmanna hefur frammistaða Vestra verið nokkuð góð. Liðið hefur unið þrjá leiki og gert eitt jafntefli og er í 10. sæti deildarinnar með 10 stig. Vestri hefur sýnt að það teflir fram liði sem á fullt erindi í Bestu deildina.

Fyllum stúkuna

Heimavöllurinn er liðum mikilvægur og með góðri frammistöðu þar er lagður grunnur að árangursríku keppnistímabili. Stuðningur heimamanna er lykillinn að góðu gengi á heimavelli.

Nú er lag fyrir Vestfirðinga, Vestri er með gott lið og kominn er góður völlur. Þá er að hvetja heimamenn til þess að koma á leikinn á morgun og styðja sína menn. Fyllum stúkuna á Kerecis vellinum!

DEILA