Rafmagnsendur í vestfirskum skógum: nýlegar fréttir af raforkumálum í stærra samhengi

Til er saga hér á Ísafirði af (nafngreindu) ungu barni sem var að ræða við pabba sinn um endurnar sem syntu niðri í Tunguá. „Æi, pabbi, þetta voru rafmagnsendur“ sagði barnið, en pabbinn fattaði ekki neitt fyrr en hann áttaði sig á að barnið var að tala um straumendur.

Ég veit að þetta er langsótt tenging yfir í máltækið um fugla í hendi og skógi, og þaðan yfir í raforkumál á Vestfjörðum, en ég læt hana samt flakka.

Nýjar fréttir

Sagt var frá því í fréttum fyrir nokkrum dögum að Landsnet og Vesturverk hefðu gert samning um undirbúning tenginga Hvalárvirkjunar, og er þá sú virkjun aftur komin á rekspöl eftir ládeyðu síðustu ára. Þá komu fyrr í mánuðinum fram drög verkefnastjórnar rammaáætlunar þar sem þrjár virkjanir á Vestfjörðum voru settar í nýtingarflokk. Þá eru virkjanir í burðarliðnum í Dýrafirði. Að frátöldum Kaldrananeshreppi og Bolungarvík eru því öll sveitarfélög á Vestfjörðum með einhverjar virkjanir til skoðunar á mismunandi stað í ferlinu. Þá hefur hitavatnsfundur í Tungudal áhrif á rafmagnskerfið.

Enginn af þessum rafmagnsfuglum er í hendi, en þeir eru nokkrir í skógi. Það er því tilefni til að staldra við. Förum yfir þetta sveitarfélag fyrir sveitarfélag, en fyrst aðeins um rafmagnskerfið.

Staðan núna

Uppsett afl allra virkjana á Vestfjörðum er um 21 MW, en raunveruleg framleiðsla á einhverjum köldum dögum er þó einungis um helmingur þess. Það er svipað og uppsett afl Mjólkárvirkjana, og þó við Vestfirðingar lítum gjarnan á Mjólká sem stóra virkjun, er hún í raun mjög lítil. Svo lítil að hún krefðist tæplega umfjöllunar í rammaáætlun ef hún yrði reist í dag.

Þessa sömu vetrardaga, þegar rafkyntar hitaveitur eru í gangi, er álagið á kerfið um 44 MW, og því eru þrír fjórðu rafmagnsins fluttir inn til svæðisins á veturna. Til 2030, sem er handan hornsins þegar talað er um tímaskala virkjanaframkvæmda, er gert ráð fyrir að heildaraflþörf verði tæp 80 MW, til að dekka orkuskipti, vinnslu á kalkþörungaseti og fólksfjölgun. Rekstur varaaflskerfa er dýr og endar með einum eða öðrum hætti á neytendum. 

Fyrir liggja margar skýrslur sem lýsa þessu nánar, þær síðustu frá apríl 2022 og júní 2023.

Árneshreppur: Hvalárvirkjun

Árneshreppur er með eina virkjun í rammaáætlun, Hvalárvirkjun (55 MW). Á dögunum undirritaði Vesturverk, sem er að mestu í eigu HS Orku, samning við Landsnet um áframhaldandi undirbúning tenginga virkjunarinnar við flutningsnetið. Þar með lýkur kyrrstöðu sem verið hefur á málinu síðustu ár.

Virkjunin er í rammáætlun og skipulag liggur fyrir fyrir virkjunina sjálfa, en háspennustreng yfir Ófeigsfjarðarheiði á eftir að finna stað auk staðsetningar fyrir tengivirki sem virðist stefna í að verði í Miðdal á leið upp á Steingrímsfjarðarheiði. Þá mun þurfa að leggja streng þaðan yfir í Kollafjörð.

Þetta tengivirki verður í Strandabyggð, en með því verður virkjun í Austurgili einnig gerleg eins og ég segi frá næst.

Strandabyggð: Skúfnavötn, Austurgil og Kvíslartunga

Austurgilsvirkjun (20-35 MW) í Skjaldfannardal hefur verið í nýtingarflokki rammaáætlunar um langa hríð. Verkefnið er á vegum einkafyrirtækisins Arctic Hydro. Virkjunin var á fyrri stigum skráð með 35 MW en einhver minni útfærsla gæti verið hagkvæmari. Það sem staðið hefur í vegi fyrir því að ráðist yrði í framkvæmdina er hár tengikostnaður ef Austurgilsvirkjun er ein reist og Hvalárvirkjun ekki. Strax og búið er að tengja Hvalárvirkjun er ódýrara að tengja Austurgil líka. Hinsvegar á eftir að ganga frá endanlegum samningum um kerfisframlag Vesturverks til Landsnets, og í kjölfarið sambærilegum samningum milli Arctic Hydro og Landsnets. Þangað til það er í höfn eru báðar virkjanir rafmagnsfuglar í skógi.

Skúfnavatnavirkjun (16 MW) var á dögunum sett í nýtingarflokk í drögum að flokkun virkjana. Hún er í Ísafirði, á vinstri hönd þegar lagt er af stað upp á Steingrímsfjarðarheiði og er Vesturverk með verkefnið á sinni könnu. Stutt er frá Skúfnavatnavirkjun að væntanlegum tengipunkti á Steingrímsfjarðarheiði. Það yrði þá þriðja virkjunin sem gæti tengst þeim punkti, en án stóru virkjananna verður augljóslega ekki af byggingu Skúfnavatnavirkjunar. 

Undirbúningur fyrir Kvíslartunguvirkjun í Steingrímsfirði er kominn talsvert lengra. Hún er 9,9 MW og fer því ekki til umfjöllunar í rammaáætlun sem tekur eingöngu til virkjana yfir 10 MW. Sú virkjun stórbætir orkuöryggi á Ströndum og meira en annar eftirspurninni þar. Hún er hinsvegar svo langt frá Mjólká að hún mun ekki hafa teljandi áhrif á raforkuöryggi Vestfjarða að öðru leyti.

Vesturbyggð

Hið nýja sameinaða sveitarfélag Vesturbyggð er með Vatnsfjörð innan sinna sveitarfélagsmarka. Orkubú Vestfjarða óskaði fyrir nokkrum misserum síðan eftir því að umhverfisráðherra breytti friðlýsingarskilmálum friðlandsins í Vatnsfirði svo hægt væri að taka virkjunina til umfjöllunar á vettvangi rammaáætlunar. Ráðherra óskaði eftir umsögnum um þá ósk og bárust nokkrar, þar á meðal frá sveitarstjórn þáverandi Vesturbyggðar. Skipulags- og umhverfisráð gaf jákvæða umsögn en þeirri ákvörðun var snúið í sveitarstjórn sem eftir atkvæðagreiðslu ákvað að standa gegn breytingu á friðlýsingarskilmálum. Ný sveitarstjórn var kosin fyrr í mánuðinum.

Orkubússtjóri sagði í ræðu sinni á ársfundi Orkubúsins á dögunum að skerðing á birki yrði 0,2% innan friðlandsins og skerðing víðerna eins og þau eru skilgreind í lögum yrði 0,027% af víðernum á landsvísu.

Reykhólahreppur: Tröllárvirkjun

Tröllárvirkjun (13 MW) er í Reykhólahreppi og er ein þriggja virkjana sem ráðgert er að setja í nýtingarflokk og er hún í undirbúningi á vegum Orkubús Vestfjarða. Hún nýtir að hluta sama vatn og Hvanneyrardalsvirkjun í Súðavíkurhreppi. Þrátt fyrir að umsögn faghóps um hagræn áhrif verkefnisins sé jákvæð hefur Orkubú Vestfjarða sagt að virkjunin sé ekki hagkvæm frá þeirra bæjardyrum (sjá bls. 33). 

Súðavíkurhreppur

Hvanneyrardalsvirkjun (13 MW) er í undirbúningi hjá Vesturverki, en hún nýtir eins og áður hefur komið fram að hluta sama vatn og Tröllárvirkjun og því geta þær ekki samtals orðið 26 MW. Það verður áhugavert að sjá hvernig þessu máli vindur fram, því virkjanirnar eru í sitthvoru sveitarfélaginu og undirbúningur þeirra er á hendi sitthvors fyrirtækisins. Virkjunin myndi tengjast kerfinu í sama tengipunkti og Hvalá, Skúfnavötn og Austurgil og hangir því á sömu spýtu.

Ísafjarðarbær

Að síðustu skulum við tala um bæinn minn, Ísafjarðarbæ.

Í Dýrafirði er unnið að undirbúningi að 5 MW virkjun í botni fjarðarins og í næsta dal, Hvallátradal, er í skoðun 2,5 MW virkjun. Báðar verða rennslisvirkjanir og einungis með dægurmiðlun. Næsta skref er að ráðast í umhverfismat.

En stóra málið eru jákvæðar fréttir af jarðhitaleit í Tungudal sem voru einstaklega gleðilegar, svo mjög að ég stakk mér til sunds í volgrunni og uppskar fréttatilkynningu frá Orkubúinu um að það væri stórhættulegt. Öðruvísi mér áður brá; sjóðheitt jarðvatn í Tungudal. Það ætti kannski að endurvekja Mýrarboltann eitt síðasta skipti áður en vatnið verður leitt inn í ofnakerfi Tunguhverfisíbúa?

Ég viðurkenni að ég var orðinn úrkula(!) vonar um að þessi leit bæri árangur og að áfram yrði Ísafjörður stærsta byggðalagið án jarðhitaveitu. Áhugaverður fyrirlestur Auðar Öglu Óladóttur á ársfundi Orkubúsins setti þetta mál í aðeins annað samhengi, meðal annars hvað ítarleg leit hefur áður borið árangur þó seint sé, og vísaði hún til Hafnar í Hornafirði og Mosfellsbæjar í því samhengi.

Hitavatnsfundurinn mun hafa áhrif á íbúa inni í firði, en vatnið þar hefur verið rafkynt eftir að Funi hætti rekstri. Rafmagnið sem áður fór til þess mun þá verða tiltækt til annarra nota.

Eftir afkastamælingu síðastliðinn laugardag kemur í ljós að holann gefur 45–50 l/s af 56°C heitu vatni. Miðað við þessar forsendur má áætla að orkusparnaðurinn jafngildi 6,7-7,5 MW. Uppsett afl kyndistöðvanna samanlagt eru 13 MW og afltoppurinn yfir veturinn undir 10 MW.

Með þessu vatnsmagni, sem hefur þó ekki verið staðfest með langtímadælingu er að mínu viti óhætt að segja að allur Ísafjörður nýtur góðs af jarðhitanum. Það liggur fyrir að það mun þurfa að skerpa á hitanum, eflaust með varmadælu og nú liggur vinnan í því að hanna gott kerfi með góðri og skynsamlegri nýtingu á hitanum.

Orkubúið er að byrja að bora nýja rannsóknarholu í Seljalandi og í kjölfarið á henni verður ný vinnsluhola staðsett. Þá fáum við enn betri mynd á það hverju heitavatnskerfið í Tungudal skilar. Þetta er auðvitað talsverður viðsnúningur, en á ársfundi Orkubúsins fyrir nokkrum vikum var talað opinskátt um að um að hætta rekstri fjarvarmaveitanna í Skutulsfirði. Slík niðurlagningaráform hljóta að bíða um sinn meðan borað er meira í Tungudal.

Boranir í Tungudal hafa verið fjármagnaðar af ríkinu sem hefur af því beinan hag vegna umfangsmikilla niðurgreiðslna til íbúa á köldum svæðum. Ég er ekki nógu vel að mér í lögum og reglum til að átta mig á áhrifum heitavatnsfundarins á hitakostnað neytenda þegar upp er staðið.

Mikilvægt er að halda því til haga að olíubruni Orkubúsins hefur ekki komið til af rafmagnsskorti sem slíkum, heldur þeirri staðreynd að rafkyntar veitur hafa ekki borgað sig nema með því að vera á skerðanlegu rafmagni. Þegar skerðingar byrja, er ódýrara að brenna olíu en kaupa rafmagn og því fer sem fer. Um hálfur milljarður króna fór í olíukaup í vetur.

Niðurlag

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti í gær tillögu mína að umsögn um drögin að flokkun virkjunarkosta sem sett var í samráðsgátt á dögunum. Í umsögninni var hnykkt á því að engin þeirra virkjana sem þar var fjallað um væri innan sveitarfélagsmarka Ísafjarðarbæjar. „Hitt er þó deginum ljósara, að Ísafjarðarbær hefur af því ríka hagsmuni að staða raforkumála á Vestfjörðum batni. Orkuöryggi er ónógt og styrkur kerfisins ekki nægur til að mæta ýmsum áskorunum nútíma og framtíðar. Ísafjarðarbær virðir auðvitað skipulagsvald annarra sveitarfélaga og það verður þeirra að veita þau leyfi sem til þarf.“

Ennfremur sagði: „Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar fagnar þeirri áherslu verkefnastjórnar og faghópa á að staða raforkumála á Vestfjörðum sé bág og að úrbóta sé þörf. Ísafjarðarbær hvetur ráðherra til að tryggja að þessi drög verði að endanlegri niðurstöðu. Þá hvetur bærinn virkjunaraðila að láta undirbúning ekki dragast og sveitarfélög með skipulagsvald til að stuðla að því fyrir sinn hatt að af þessum virkjunum megi verða.“

Ég hef á síðustu misserum haft verulegar áhyggjur af stöðu og horfum í orkumálum á Vestfjörðum, en nú á stuttum tíma hafa þrjár stórar góðar fréttir borist. Það er því ástæða til hóflegrar bjartsýni.

Ekkert af því sem ég nefni að ofan er þó komið til framkvæmda enn eða tengt við rafkerfin. Þangað til eru þetta rafmagnsfuglar í skógi, en ekki í hendi.

Gylfi Ólafsson

formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar fyrir Í-lista

Það skal einnig tekið fram að ég var skipaður varamaður í stjórn Landsnets í vor. Ég hef engan stjórnarfund setið, enga aðkomu haft að neinni ákvörðun félagsins og engar upplýsingar aðrar en þær sem eru opinberar.

DEILA