Fram kemur í skýrslu Reykjavík Economics, sem unnin var fyrir Faxaflóahafnir, að áætlaðar tekjur Ísafjarðahafna í fyrra af komu skemmtiferðaskipa hafi verið 453 m.kr. Heildartekjur voru 630 m.kr. og eru nærri því 3/4 teknanna af skemmtiferðaskipum. Alls komu 187 skip með um 184 þúsund farþega.
Komum skemmtiferðaskipa til hafna Ísafjarðarbæjar hefur fjölgað um 78% frá árinu 2018 til ársins 2023 og farþegum hefur fjölgað um 152%.
Efnahagslegu áhrifin 775 – 5.000 m.kr.
Lagt er mat á efnahagsleg umsvif af komu skemmtiferðaskipa til hafnar í skýrslunni og stuðst við þrjár kannanir um eyðslu farþega. Elst er könnun GP Wild frá 2018 og tvær eru frá síðasta ári, annars vegar könnun Rannsóknarmiðstöðvar ferðamála, RMF, og hins vegar greining Cruise Lines International
Association (CLIA). Samkvæmt þeim er meðaleyðsla pr farþega 4.210 kr. í könnun RMF, 21.000 kr. í CLIA könnuninni og 27.027 kr. í könnun GP Wild.
Miðað við þær forsendur og að í fyrra komu 184 þúsund farþegar til Ísafjarðahafna þá eru efnahagslegu áhrifin talin hafa verið frá 775 m.kr. upp í 5 milljarða króna.
Í öllum tilvikum eru áhrif á Ísafirði þau þriðju mestu á landinu á eftir Reykjavík og Akureyri.
Heildar efnahagslegu áhrifin á landinu öllu eru talin vera á bilinu 22 – 30 milljarðar króna af komu skemmtiferðaskipa á síðasta ári. Tekjur hafnanna voru 3,4 milljarðar króna á síðasta ári og tvöfölduðust frá árinu 2022.
Áætluð efnahagsleg áhrif á síðasta ári skv. könnun GP Wild.