Árneshreppur: íbúafundur á morgun

Frá fyrri íbúafundi í Árneshreppi. Mynd: Skúli Gautason.

Fimmtudaginn 20. júní verður haldinn íbúafundur í Félagsheimilinu í Trékyllisvík.
Þetta verður síðasti íbúafundurinn undir merkjum Áfram Árneshrepps, en það er heiti á þátttöku Árneshrepps í Brothættum byggðum á vegum Byggðastofnunar. Verkefnisstjóri er Skúli Gautason, en formaður verkefnisstjórnar er Arinbjörn Bernharðsson.
Á fundinum verður stutt og myndræn yfirferð á því sem hefur áunnist í verkefninu, en það hefur staðið frá árinu 2017.  Þá verður stutt ávarp frá fulltrúum Byggðastofnunar, sagt verður frá störfum Strandanefndarinnar, sem var skipuð í byrjun árs af ríkisstjórninni og starfar á vegum forsætisráðuneytisins. Stutt kynning verður á Baskasetri Íslands, en það opnaði með formlegum hætti sýninguna 1615 nú í byrjun júní í einum af síldartönkunum í Djúpavík. Sýningin fjallar einkum um Spánverjavígin og framundan er frekari uppbygging á sýningunni. Að lokum verður hópavinna á borðum með þátttöku gesta og má vænta þess að það verði líflegar umræður.

Slíkir íbúafundir hafa verið haldnir árlega frá árinu 2017 og stundum tvisvar á ári. Verkefnisstjórnin hefur rekið málefni Árneshrepps gagnvart ríkinu og lagt höfuðáherslu á að byggja upp innviði í sveitarfélaginu. Auk þeirra hefur hún staðið fyrir súpufundum, bjórkvöldum og kvikmyndasýningum í félagsheimilinu.

Allir íbúar og aðrir velunnarar Árneshrepps eru velkomnir á fundinn sem hefst kl. 15:00 fimmtudaginn 20. júní.

DEILA