Hrafnseyri: hátíðarræða Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra

Menningar – og viðskiptaráðherra Lilja Dögg Alfreðsdóttir setti þjóðhátíð á Hrafnseyri á mánudaginn með hátíðarræðu. Mikil hátíðarbragur var á Hrafnseyri, fæðingarstaðs Jóns Sigurðssonar forseta, en þar er meðal annars finna Menningarsetur um ævi og störf Jóns og kaffihús sem bauð gestum fæddum 1944 upp á lýðveldistertu í tilefni að 80 ára afmæli lýðveldisins.

Í ræðu sinni kom ráðherra meðal annars inn á hversu mikilvægt hún telur að auðlindir landsins eigi að vera í eigu þjóðarinnar og því þurfi að klára frumvarp um fjárfestingarrýni sem liggur fyrir þinginu. Frumvarpið er liður í því að rýna betur erlendar fjárfestingar á Íslandi og setja reglur um þær til samræmis við önnur Norðurlönd.  

Þá lagði ráðherra áherslu á að komið yrði á lagg­irn­ar gervi­greind­ar- og mál­tækni­setri í þágu tækni og tungu­máls. Setrið yrði sam­starfs­vett­vang­ur at­vinnu­lífs og stjórn­valda og ein­set­ur ráðherra sér að Ísland sé í fremst röð í tækn­inni og nýti sér kosti mál­tækni.

Ræðuna má sjá í heild sinni hér að neðan:

Kæru landsmenn!

Ég óska öllum innilega til hamingju með áttatíu ára lýðveldisafmælið og afmælisbarninu Jóni Sigurðssyni til hamingju með daginn á þessum bjarta degi hér á Hrafnseyri. Það er mér og fjölskyldu minni sannur heiður að fá að fagna með ykkur hér á fæðingarstað Jóns Sigurðssonar, forseta. Ekkert gleður mig meira á þessum fallega degi en að vera með ykkur.

Með stofnun lýðveldisins hinn 17. júní 1944 náðist lokamarkmið í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar eftir áfangasigra áratuganna á undan. Þeir sigrar voru bornir uppi af eldhugum þeirra tíma, sem höfðu þá bjargföstu trú að íslenskri þjóð myndi farnast best á grundvelli eigin sjálfstæðis. Í amstri hversdagsleikans og dægurþrasi stjórnmálanna vill það kannski stundum gleymast hversu umfangsmiklar samfélagsbreytingar hafa orðið á Íslandi. Fullveldið árið 1918 og að lokum sjálfstæðið árið 1944 voru hornsteinar þeirrar framtíðar sem átti eftir að fylgja í kjölfarið, sem byggð voru á forsendum og ákvörðunum Íslendinga sjálfra um eigin framtíð.

Í þessu ávarpi mínu ætla ég að varpa fram þeirri spurningu kæru landsmenn hvort stofnun lýðveldisins hafi verið framfaraskref í þágu lands og þjóðar. Ég mun svara spurningunni út frá tveimur mælikvörðum, annars vegar efnahagslegri velsæld samfélagsins og hins vegar menningarlegri stöðu Íslands með áherslu á tungumálið okkar. Ég mun nota hugsjónir og stefnu afmælisbarnsins Jóns Sigurðssonar til að svara þessum spurningum.


Efnahagslegt sjálfstæði

Jón Sigurðsson lagði stund á hagfræði við Kaupmannahafnarskóla og það er ljóst að hann var vel lesinn og kunni góð skil á helstu klassísku kenningum hagfræðinnar, þar sem leiðarstefið var gjarnan hvernig þjóðir gætu aukið hagsæld sína og auðlegð. Augljóst er á skrifum hans að hugmyndir hinna klassísku hagfræðinga Adam Smith og David Ricardo voru ákveðið leiðarljós í skrifum hans um framtíðarfyrirkomulag íslenska hagkerfisins.

Jón Sigurðsson var afar framsýnn maður og einn mesti stjórnmálahugsuður sem Ísland hefur alið af sér. Hann skildi að alþjóðaviðskipti eru ekki aðeins viðskipti með vörur og þjónustu, heldur einnig mikilvæg brú milli þjóða, menningar og hugmynda. Hann vissi að með því að berjast fyrir verslunarfrelsi og að opna land okkar fyrir alþjóðlegum viðskiptum myndum við ekki aðeins auka hagsæld okkar, heldur einnig læra af öðrum þjóðum og deila okkar eigin reynslu og menningu. Jón var sannfærður um að verslunarfrelsi væri grundvöllur fyrir efnahagslegum vexti og velmegun þjóðarinnar. Verslunarfrelsi er ekki aðeins spurning um efnahagslegan ávinning, heldur einnig um sjálfstæði þjóðarinnar og réttinn til að ráða eigin örlögum.

Hinar klassísku hagfræðikenningar höfðu rutt sér til rúms á æviskeið Jóns og það verður mikil aukning í alþjóðaviðskiptum. Samhliða því verða umfangsmiklar framfarir í öllum samgöngum og fjarskiptum. Hinn klassíski hagfræðiskóli lagði áherslu á að alþjóðaviðskipti væru grundvöllur fyrir efnahagslegum vexti og nýsköpun. Fleiri störf væru sköpuð, aukin framleiðni, sem stuðlaði að auknum hagvexti og betri lífskjörum fyrir alla þjóðfélagshópa. Þetta tímabil skóp skilyrðin fyrir einu mesta framfaraskeiði á Vesturlöndum sem er kennt við hina alþjóðavæðingu hina fyrri eða frá 1860-1914. Jón drakk í sig allar þessar stefnur og straumar, staðfærði á íslensk skilyrði. Jón var að mínu mati skemmtileg blanda af alþjóðasinna og þjóðhyggjusinna en skoðum hvað hann ritaði um þessi mál.

,,Farsæld þjóðanna er ekki komin undir því að þær séu mjög fjölmennar eða hafi mjög mikið um sig. Sérhver þjóð vegnar vel sem hefir lag á að sjá kosti lands síns og nota þá eins og þeir eiga að vera notaðir. Löndin eru lík einstökum jörðum; ekkert land hefir alla kosti og ekkert er heldur alls varnað; en það ríður á að taka eftir kostunum og nota þá vel, en sjá til að ókostirnir gjöri sem minnst tjón. Einkanlega varðar mjög um þetta í hinum harðbýlari löndum því kostir þeirra eru ógreiðari atgöngu og þarf fylgis og dugnaðar ef þeir eiga að verða að fullum notum.“

Þessi skrif eru einmitt í anda þess hvernig hagkerfið okkar þróaðist síðar meir og segja má að þær efnahagsleguframfarir sem eiga sér stað á 20. öldinni séu einstakar í heimshagsögunni. Ísland fer úr því að vera eitt fátækasta ríki í Evrópu í að hafa einar hæstu þjóðartekjur á hvern einstakling.

En hver er grunnurinn að þessum efnahagslegu framförum? Þær liggja einmitt í texta Jóns Sigurðssonar og kenningum hinnar klassísku hagfræði, þegar lagt er út frá því að sérhver þjóð þurfi að sjá kosti sína og nýta sér þá. Það er ljóst að Íslandsmiðin voru eftirsótt eins og Númi Þorbergsson, tóntextaskáld, orti á sínum tíma. Framfarasinnað fólk á Íslandi áttaði sig fljótt á því að til að sækja fram fyrir þjóðina þyrfti að nýta sér þennan greiða aðgang að hafinu og nýta landfræðilega stöðu landsins. Með vélvæðingu sjávarútvegsins um aldamótin 1900, sem hófst með innleiðingu véltogara og mótorbáta hófst mikið uppbyggingarskeið, sem hafði sannarlega áhrif um allt land og sérstaklega við sjávarsíðuna. Þetta þekkja Vestfirðingar mæta vel enda var uppbygging mikil hér á þessum slóðum.

Samhliða tækniþróun jukust utanríkisviðskipti Íslendinga jafnt og þétt og skópu aðgengi að nýjum gjaldeyristekjum. Framfaraskref voru tekin í stjórnmálasviðinu með heimastjórninni 1904 og verulega auknum áhuga fólksins í landinu á að auka sjálfræði þjóðarinnar. Með fullveldinu 1918 fengu Íslendingar langþráð fullveldi löggjafans, dómsvaldsins og yfir fjárreiðum ríkissjóðs. Það er hins vegar ekki fyrr en eftir lýðveldisstofnunina að hinu formlega sambandi við Danmörk er slitið og fullt sjálfstæði þjóðarinnar verður að veruleika. Langþráður draumur afmælisbarnsins og 97% þeirra sem greiddu atkvæði um stofnun lýðveldisins. Þvílíki dagurinn, hann var samt ekki eins sólríkur og hér í dag. Á merkilegri sýningu sem var opnuð 14. júní í Þjóðminjasafninu, sem Kvikmyndasafn Íslands á heiðurinn af í samvinnu við Þjóðminjasafnið, eru sýndar áður óséðar kvikmyndir frá hátíðarhöldunum á Þingvöllum og það rigndi mikið og var vindasamt en fólkið okkar var samt með sól í hjarta sínu.

Eftir lýðveldisstofnun og seinni heimsstyrjöldina var farið í að efla nýsköpun í atvinnulífi og allri uppbyggingu, sérstaklega í sjávarútvegi og iðnaði. Á þessum tíma var lögð áhersla á að endurnýja og bæta fiskiskipaflotann með nýjum og betri skipum, sem átti að auka afköst og tekjur sjávarútvegsins. Einnig var unnið að því að efla innviði landsins, svo sem vegakerfi og raforkukerfi. Á sama tíma hélt hin efnahagslega sjálfstæðisbarátta áfram með baráttunni fyrir stækkun landhelginnar í þeim tilgangi að auka gjaldeyristekjur þjóðarbúsins. Fullnaðarsigur hafðist gegn breska heimsveldinu í þorskastríðunum, sem endaði að lokum með því að 200 mílna efnahagslögsagan varð að veruleika. En eins og við þekkjum, þurfti að hafa fyrir þessu og sýna dugnað, eins og afmælisbarnið lagði áherslu á. Óðinn og Þór stóðu í stafni fyrir íslenska þjóð og börðu á breska heimsveldinu. Þessi barátta fyrir efnahagslegu sjálfstæði skilaði íslensku þjóðarbúi miklum gjaldeyristekjum og lagði grunninn að þeirri hagsæld og velferðarkerfi sem við þekkjum í dag og þykir svo vænt um.

Þjóðin staldraði ekki þar við – heldur áttaði sig á því að erfitt væri að hafa öll eggin í sömu körfunni, þegar kom að gjaldeyrissköpun og leitaði þá aftur í smiðju Jóns og Ricardo og fór að framleiða raforku til útflutnings og þar með minnkaði vægi sjávarútveg frá því að vera um 90% af gjaldeyrissköpun þjóðarbúsins í um það bil helming. Þjóðin fjárfesti í Landsvirkjun, sem hefur verið í fararbroddi í orkuöflun landsins ásamt hitaveitum sveitarfélaganna. Fjárfestingar þjóðarfyrirtækisins hafa verið arðbærar og hefur fyrirtækið greitt um 50 milljarða í ríkissjóð á undanförnum þremur árum og munar um minna. Íslenska hagkerfið hefur haldið áfram að vaxa og dafna og hefur ferðaþjónusta sótt verulega í sig veðrið á síðustu tveimur áratugum og nú er svo komið að mestar gjaldeyristekjur koma frá henni eða um 33%. Náttúra Íslands er þar aðalaðdráttaraflið og ánægja okkar gesta er mikil með Íslandsheimsóknina. Aftur er komið við í hugarsmiðju Jóns og Ricardo, þar sem ferðaþjónustan er að nýta kosti landsins og sækir fram af dugnaði. Hugverkin og skapandi greinar hafa einnig verið í stórsókn og skapa nýjan gjaldeyri og ný störf. Á Ísafirði er eitt slíkt fyrirtæki, líftæknifyrirtækið Kerecis, sem breytir fiskroði í sáraplástra og er að ná undraverðum árangri í lækna ein erfiðustu brunasár sem einstaklingar bera. Enn og aftur, er það dugnaðurinn og kjarkurinn sem drífur einstaklinga áfram í að skapa og búa til velsæld fyrir samfélagið sitt og umheiminn – sem nýta sér kosti landsins – sjávarfangið og mannauðinn.

Það sem einkennir þessa hagþróun er að þjóðin er að nýta auðlindir sínar, hugvit og framfarir í tækni á öllum sviðum hafa reynst Íslandi vel í því fámenni sem við búum við. Eitt af því sem fram kom iðulega hjá afmælisbarninu er að þrátt fyrir fámenni er hægt að ná árangri.

Þessi hagþróun og verðmætasköpun hefur skipað Íslandi í fremstu röð meðal þjóða er varðar efnahagslega velmegun. Þjóðartekjur eru með þeim hæstu í veröldinni og jöfnuður á meðal þjóðarinnar mikill út frá öllum alþjóðlegum mælikvörðum. Ég er stolt af þessum árangri og tel að við eigum að halda áfram að sækja fram og skapa meiri verðmæti og hagvöxt, sem er sjálfbær.

Til að svara spurningunni hér að ofan, um það hvort lýðveldið hefði leitt af sér framfarir á sviði hagsældar þjóðarinnar – þá er svarið einfalt. Já svo sannarlega, kæru landsmenn.

Lykillinn að áframhaldandi velsæld er dugnaður og einblína á kostina. En að sama skapi hef ég þá staðföstu sýn að auðlindir landsins verði að vera í eigu þjóðarinnar. Landsvirkjun skal áfram vera í þjóðareigu og sala á landi til erlendra aðila er með öllu ósjálfbær til framtíðar. Í framtíðinni verður skortur á landi, hreinu vatni og grænni orku. Þar erum við Íslendingar lánsöm þjóð og eigum að varðveita landið fyrir komandi kynslóðir, svo að þær geti búið við jafnvænan kost og okkur hefur verið búinn. Þetta er alvöru mál og er ég þess sannfærð um að þjóðhyggju- og alþjóðasinninn Jón Sigurðsson væri mér sammála um hversu mikilvægt það er fyrir framtíðarkynslóðir að við setjum skýrar línur um þessi mál. Fjárfestingarrýni frumvarpið, sem liggur fyrir þinginu er liður í því að rýna mun betur erlendar fjárfestingar á Íslandi og setja reglur um þær til samræmis við önnur Norðurlönd. Þessi lög eru löngu tímabær og mikilvæg vegferð í að halda betur utan um auðlindir Íslands og tryggja þjóðaröryggi landsins. Það eru viðsjárverðir tíma í heimsmálunum. Árásarstríð Rússlands í Úkraínu er enn háð af miklu miskunnarleysi og á eftir að hafa áhrif á skipan mála í Evrópu næstu áratugi. Stríðsátökin við botni Miðjarðarhafs eru þyngri en tárum tekur og virðast engan endi ætla að taka. Við megum þó aldrei glata voninni um frið og skipa okkur í sveit með þeim ríkjum sem deila okkar hugsjón um frelsi og lýðræði.

Menning og tungumálið

Víkur sögunni að menningunni og tungumálinu. Afmælisbarnið var einkar áhugasamt um íslenska tungu og hinn merka bókmenntaarf þjóðarinnar. Hann lagði áherslu á að tungumálið væri lykillinn að sjálfsmynd og menningu þjóðar. Eins og þið þekkið þá var íslenskan á 19. öldinni í hættu vegna aukinnar dönskunotkunar, sérstaklega í opinberum skjölum og menntakerfinu. Jón Sigurðsson sá að varðveisla og efling íslenskrar tungu var grundvallaratriði fyrir sjálfstæði þjóðarinnar. Ástríða hans fyrir tungumálinu birtist í fjölmörgum greinum í Nýjum-Félagsritum og í Andvara. En í einni greininni sem rituð var árið 1858 segir hann:

„Að forminu til er mikill og undarlegur galli á okkar lögum, sem ætti ekki eiga sér stað nokkurstaðar í heimi, þar sem svo á að heita að þjóðin njóti þeirra réttinda, að mega tala sínu máli; að eiga fulltrúaþing með réttindum til að ræða löggjafarmál og sérhver önnur stjórnarmál landsins á þess eigin tungumáli; að hafa kirkjustjórn, skólastjórn og dómaskipan einnig á sínu eigin máli: Þessi galli er sá, að lög Íslands koma út bæði á Dönsku og Íslenzku, en þannig, að Danskan ein er undirskrifuð af konúngi, og hefír að því leyti meira gildi en íslenzkan, en íslenzkan ein er aftur þínglesin, og hefir að þeim helmíngnum meira gildi en Danskan.“

Jón mótmælti því harðlega að lögin væru undirrituð af konungi á dönsku og því taldi hann að það væri verið að taka af Íslendingum þeirra náttúrulega rétt hverrar tungu sem sé lifandi þjóðmál einsog íslenzkan, að lögin skulu eingöngu vera á því tungumáli .. „og skuli engum öðrum skipunum hlýðnast“. Jón Sigurðsson taldi tungumálið einhverja mikilvægustu málsvörn okkar í sjálfstæðisbaráttunni. Án íslenskunnar byggi um sig í landinu önnur þjóð og ókunnug.

Líkt og á tímum Jóns, þá hefur tungumálið okkar sjaldan staðið frammi fyrir jafn umfangsmiklum áskorunum og einmitt í dag. Nefni ég til sögunnar þrennt sem hefur mikil áhrif:

Í fyrsta lagi, þá er enskan mál tækninnar og hún er alls staðar. Börn eru komin í návígi við ensku strax í máltöku og sér málvísindafólkið okkar breytingar á máltöku barna vegna þessa. Í öðru lagi, þá hefur Ísland breyst mikið sem samfélag á síðasta aldarfjórðungnum en innflytjendur vorum um 1% fyrir 30 árum en eru í dag um 16%. Flestir hafa komið hingað í leit af betri lífi og jafnvel ýmsir sem hafa elt maka sinn hingað til lands og stofnað fjölskyldu. Meginþorri þessa fólks hefur eflt landið og gert það áhugaverðara. Í þriðja lagi, þá reiðir ein stærsta útflutningsgreinin okkar sig á enska tungu í viðskiptum sínum en það á reyndar líka við um hluta sjávarútvegs og byggingageirann. Þegar þessir stóru atvinnuvegir reiða sig á fólk af erlendum uppruna, þá er ljóst að tungumálið okkar er undir talsverðu álagi og þarf að hafa fyrir því að koma sér á framfæri.

Til að ná utan um þessar áskoranir og vinna í anda afmælisbarnsins, þá þýðir ekkert annað en að sýna dugnað og metnað! Tel ég að við eigum að einangrast og reyna að láta tímann standa í stað? Alls ekki – við getum sótt fram en á sama tíma og varið tungumálið okkar.

Íslenskan hefur sótt verulega í sig veðrið í heimi tækninnar. Við sjáum gríðarlegar framfarir í mállíkunum gervigreindarinnar. Stjórnvöld í samvinnu við atvinnulífið fóru í það að smíða þá tækniinnviði sem eru nauðsynlegir til að hægt sé að íslenskan komist að í heimi gervigreindarinnar. Það er ánægjulegt að sjá hversu vel stærstu tæknifyrirtækin hafa tekið á móti þessu forna tungumáli hvort sem það er eitt fremsta gervigreindarfyrirtæki veraldar OpenAI eða Microsoft eða Google. Öllum finnst við vera að gera spennandi hluti og vilja samstarf við okkur. Því er nauðsynlegt að setja á laggirnar Gervigreindar- og máltæknisetur, sem einsetur sér að Ísland sé í fremst röð í tækninni og nýti sér kosti tækninnar. Eins og þið munið, þá lagði Jón mikla áherslu á að hin fámenna þjóð nýti kosti landsins og þar er tæknin klárlega bandamaður okkar.


Alþingi samþykkti nýja aðgerðaráætlun í þágu íslenskunnar – þar eru tuttugu og tvær aðgerðir sem allar miða að því að styrkja tungumálið. Sérstök áhersla er á innflytjendur og íslenskunám. Þeir innflytjendur sem hafa gert Ísland að heimili sínu og náð góðum tökum á tungumálinu hafa fleiri tækifæri í atvinnulífinu og framgangur þeirra í námi verður betri. Hins vegar kvarta margir þeirra utan því að þeir eru ætíð ávarpaðir af Íslendingum á ensku og sagt er að jafnvel gæti óþolinmæði hjá okkur að tala íslensku! Þessu verðum við að breyta! Ég tel að ákveðin bylting sé einmitt að eiga sér stað hér á Vestfjörðum í þessa veru undir merkjunum: ,,Gefum íslensku séns“ en forvígismenn þess, leggja höfuðáherslu á að íslenska sé notuð sem víðast og leggja mikla vinnu í að íslenskunámsskeið fyrir innflytjendur hér á Ísafirði. Ég var viðstödd eina útskrift hjá þeim um daginn og það er skemmst frá því að segja að árangurinn er undraverður. Allir sem voru að útskrifast töluðu íslensku og nutu þess að tjá sig á íslensku. Ég hvet okkur öll, kæru landsmenn, að sækja fram í þágu tungumálsins og að nota það. Tryggja að íslenskan okkar sé sýnileg alls staðar og að hún sé ætíð fyrst.


Með því að halda íslenskunni á lofti, tryggjum við að komandi kynslóðir geti einnig notið þessa dýrmæta arfs. Við þurfum að hvetja til notkunar hennar í öllum þáttum samfélagsins, hvort sem það er í skólum eða í atvinnulífinu. Við þurfum að tryggja að íslenskan sé nútímaleg og aðlögunarhæf, án þess að glata sínu sérstaka eðli.
Jón Sigurðsson er fyrirmynd í þessu og sýndi okkur að með ástríðu, þrautseigju og trú á eigin málstað er hægt að ná miklum árangri. Við skulum taka hann okkur til fyrirmyndar og halda áfram að berjast fyrir íslenskunni, rétt eins og hann barðist fyrir sjálfstæði Íslands. Þjóðin virðist vera sammála þessari nálgun en í nýlegri könnun sem gerð var meðal landsmanna, þá kemur í ljós að 97% þykir vænt um tungumálið.


Íslensk menning er ein helsta útflutningsstoðin okkar hvort sem það er á sviði tónlistar með Óskars-, Grammy- og Baftaverðlaunahafa í broddi fylkingar, bókmenntirnar halda áfram að auka hróður okkar á erlendi grundu og þýðingar lesnar um heim allan, íslenskar kvikmyndir hafa verið í blóma og njóta velgengni hér heima og erlendis, myndlistarfólkið okkar sýnir í virtustu listasöfnunum og sviðslistir eru í miklum blóma – þar sem leikhúsin okkar eru afar vel sótt og eigum við sem þjóð enn eitt höfðatölumetið þar – og svo vil ég bara nefna það að langþráð þjóðarópera mun verða að veruleika á haustþingi.


Til að svara spurningunni hér að ofan hvort framfarir hefðu átt sér stað í menningunni og að tungumálið okkar væri við góða heilsu, þá er ég ekki í nokkrum vafa að lýðveldið hefur haldið vel utan um íslenska menningu og tungumálið okkar.

Eins og ég hef rakið hér að ofan þá búa Íslendingar við efnahagslega velmegun og menningin okkar og tungumál dafna sem aldrei fyrr. Vissulega eru áskoranir og mörg álitaefni og viðfangsefni samtímans sem þarfnast úrlausnar og við getum alltaf gert betur.

Ég er hins vegar nokkuð viss um að afmælisbarnið, Jón Sigurðsson, væri nokkuð ánægður með stöðu Íslands. Ég tel að hann myndi hvetja okkur að halda áfram að efla hagvöxt, tryggja að allir ættu tækifæri til að sækja fram á Íslandi og svo myndi hann vera með mikla hvatningu í þágu tungumálsins og sérstaklega að allir landsmenn gætu notað tungumálið sér til hagsbóta og ánægju og yndisauka. Hann myndi hvetja okkur til að sækja fram í gervigreindartækninni og nýta okkur hana til að efla tungumálið okkar og menningu en iðka á sama tíma gagnrýna hugsun sem aldrei fyrr.

Íslensk þjóð hefur í gegnum aldirnar tekist á við náttúruöflin. Það er í senn forréttindi að búa í þessu fagra landi en að sama skapi hafa jarðhræringar leikið þjóðina grátt. Í nóvember á síðasta ári var heilt bæjarfélag rifið upp með rótum vegna yfirstandandi jarðhræringa á Reykjanesi. Stjórnvöld hafa ráðist í umfangsmiklar aðgerðir eins og íbúðakaupa og gerð varnargarða til að tryggja að samfélag Grindvíkinga lifi og hef ég fulla trú á að svo megi verða enda eru Grindvíkingar eitt duglegasta fólk sem ég hef kynnst. Mikilvægt er að við stöndum áfram með Grindavík og sýnum þar með kærleika með náunganum og samhug en á sama tíma hvetjum við þau áfram til góðra verka til framtíðar.

Hér í lokin langar mig að vitna í bók Guðjóns Samúelssonar, fyrra bindi, um Jón Sigurðsson og fjalla um ástina, foreldraástina. Eftir fæðingu Jóns litla hér á Hrafnseyri voru harðindaárin mörgu og þröngt í búi. Foreldar Jóns, þau Þórdís og Sigurður, þótti að sjálfsögðu mikið koma til frumburðarins enda þótti hann bráðefnilegur. Þegar hann veikist af umgangspestum voru þau víst ekki mönnum sinnandi. Þau óttuðust svo að missa hann. Eitt sinn liggur hann, tveggja eða þriggja ára gamall, með háan hita. Séra Sigurður situr grátandi yfir honum og yrkir eftirfarandi stöku sér til hugarhægðar:

Guð hefur þig til gamans mér,
gefið, það má segja.
Hann sem öllu lífið lér
láti þig ekki deyja.

Það var íslenskri þjóð til happs og mikils ávinnings að litli Jón lifði. Fór svo í hönd eitt mesta framfaraskeið þjóðarinnar, sem var byggt á hugsjónum og stefnu Jóns forseta.

Kæru gestir. Ég óska ykkur gleðilegs þjóðhátíðardags á þessu 80 ára afmæli lýðveldisins Íslands. Ég bið ykkur að rísa úr sætum og votta fósturjörðinni virðingu okkar.

Kærar þakkir!

DEILA