Leyfum okkur að vera bjartsýn !

Jarðhitaleit í Tungudal á Ísafirði miðar ágætlega þessar vikurnar. Holan (nr. TD-9) sem boruð var við Skógarbraut í Tungudal hefur nú verið dýpkuð niður á 762 m dýpi, en áður hafði hún verið fóðruð með stálfóðringu niður á 293 m dýpi.

Í síðustu viku var lokið við að rýma holuna niður á 584 m dýpi og var í kjölfarið farið í hitamælingu og svokallað blásturspróf, sem er skammtímamæling á afkastagetu holunnar. Reiknað er með að vinnsluhitastig holunnar geti orðið 56 til 57°C. Blástursprófanir sem gerðar voru á holunni gáfu til kynna að hún væri talsvert afkastameiri en talið var í fyrstu og augnabliksdæling skilaði 45 til 50 l/sek við ásættanlegan niðurdrátt í holunni. Þetta eru þó engan veginn staðfestar tölur um langtímaafköst, en langtímadæling er nauðsynleg til að meta varanlega afkastagetu.

Verið er að útbúa borplan fyrir nýja rannsóknarholu í grennd við TD-9 og er reiknað með að bora hana niður á 500 m dýpi. Þess er vænst að holan muni gefa frekari upplýsingar um staðsetningu heitavatnsæðarinnar, umfang svæðisins og afkastagetu þess. Þær upplýsingar liggja vonandi fyrir innan fárra vikna.

Aukinnar bjartsýni gætir því hjá Orkubúinu varðandi nýtingu jarðhita til upphitunar húsa á Ísafirði, en að öllum líkindum verður notuð varmadæla til að skerpa á hitanum og nýta jarðhitann sem best þegar þar að kemur.

Fréttatilkynning Orkubús Vestfjarða

DEILA