Suðureyri: Hollvinasamtök gera upp bát á róló

Ísafjarðarbær hefur gert samning við Hollvinasamtökin fyrir bátinn Ágústu ÍS 65 um viðgerð hans.

Ágústa ÍS 65 er gamall bátur sem verið hefur leiktæki á leikvellinum á Suðureyri um áratugaskeið. Báturinn er síðasti trébáturinn sem smíðaður var á Suðureyri og verður hann 60 ára í ár. Smíðaður af Hólmbergi Arasyni. Ósk um undanþágu frá reglugerð 1025/ 2022 um öryggi leikvallatækja og leiksvæða og eftirlit með þeim var hafnað af Umhverfisstofnun veturinn 2023–24 þar sem óskað var eftir undanþágu fyrir bátinn í núverandi ástandi.

Hollvinasamtökin eru tilbúin að vinna strax að endurbótum á bátnum þannig að ekki stafi slysahætta af honum. Samtökin eru tilbúin að leggja til vinnu sjálfboðaliða og eftir atvikum fjármuni til að koma bátnum
í viðeigandi ástand þannig að undanþága fáist fyrir hann hjá Umhverfisstofnun.

Í samkomulaginu felst að Ísafjarðarbær leggur til 1.950.000 kr. í peningum, og timbur sem bærinn á nú þegar, sem verðmetið er á 400.000 kr. Um er að ræða lerki (afgangur frá viðgerð á Svarta pakkhúsinu á Flateyri) og fura (afgangur frá endurbótum á Faktorshúsinu í Neðstakaupstað).

Hollvinasamtökin leggja til:
a. Skipulagningu og vinnu við endurbætur samkvæmt lista hér að neðan.
b. Kaup á timbri og öðru smíðaefni, málningu og þess háttar sem upp á vantar.
c. Merkingar á bátnum.
d. Verkfæri, flutning og annað sem þarf til verksins.
e. Kaup á þjónustu utanaðkomandi aðila, svo sem smiða eða verkstæða.

Ef framlag bæjarins dugar ekki til, skuldbinda samtökin sig til að safna því fé sem upp á vantar.
Fjárhæðin greiðist út í tvennu lagi, helmingur 1. júlí 2024 og helmingur við verklok 2025.

DEILA