Vestfjarðastofa: Skapa með skapa.is

Ný og endurbætt Skapa.is er komin í loftið. Um er að ræða nýsköpunargátt, upplýsingaveitu og fræðsluvef fyrir frumkvöðla og aðra aðila sem eru að stíga sín fyrstu skref í nýsköpunarumhverfinu. Skapa.is er ætlað að vera einn af grunninnviðum í stuðningi við frumkvöðla til að láta hugmyndir þeirra verða að veruleika.

Skapa.is er gjaldfrjáls og opin öllum. Fræðsluhlutverk síðunnar getir öllum kleift að fræðast um nýsköpun og fá stuðning til að taka hugmyndir sínar áfram. Skapa.is var upphaflega sett á laggir í upphafi árs 2023 af Ólafi Erni Guðmundssyni en hefur nú fengið stærra hlutverk með stuðningi háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins.

Meðal þess sem finna má á Skapa.is er nýsköpunardagatal þar sem upplýsingar er að finna um alla helstu viðburði tengda nýsköpun sem eru á döfinni. Einnig má nálgast styrkjadagatal þar sem umsóknarfrestir styrkja eru tilgreindir ásamt upplýsingum um alla þá íslensku styrki sem frumkvöðlar og sprotafyrirtæki geta sótt um.

Skapa.is sinnir einnig mikilvægu fræðsluhlutverki fyrir bæði frumkvöðla og fjárfesta. Þar má m.a. finna greinargóðar upplýsingar og gagnlega hlekki um fyrstu skrefin í nýsköpunarumhverfinunýsköpun á landsbyggðinni, nýsköpunar- og viðskiptahraðla, klasa, setur, ýmis verkfæri og mismunandi fjármögnunarleiðir, fjárfestingasjóði, englafjárfestingar o.fl. Þar að auki er notendum beint á leiðir til að sækja ráðgjöf, endurgjöf og aðgengi að mentorum fyrir nýsköpunarverkefni.

Nýsköpunargáttin er einnig vettvangur fyrir nýsköpunarfyrirtæki til að sjá hvort þeirra lausnir geti leyst áskoranir hins opinbera. Þar er að finna upplýsingar um opinberar stofnanir sem leita til nýsköpunar- og sprotafyrirtækja til að leysa þær áskoranir sem glímt er við og í framhaldinu mögulega semja um kaup á lausninni.

DEILA