Vikuviðtalið: Guðrún Anna Finnbogadóttir

Ég heiti Guðrún Anna Finnbogadóttir og er fædd og uppalin á Ísafirði, gift Steinari Ríkharðssyni og við eigum saman þrjú börn. Ég starfa hjá Vestfjarðastofu sem teymisstjóri atvinnu- og byggðaþróunar með starfsstöð á Patreksfirði.

Ég er sérfræðingur á sviði sjávarútvegs, fiskeldis og umhverfismála auk þess að sinna fjölbreyttum verkefnum í hagsmunagæslu fyrir fyrirtækin og samfélögin á Vestfjörðum. Við höfum sett á laggirnar Sóknarhóp Vestfjaraðstofu sem er vettvangur fyrir öll fyrirtæki í einkarekstri á Vestfjörðum en það nær yfir fyrirtæki í iðnaði, ferðaþjónustu og menningartengdri starfsemi.

Verkefnin eru gríðarlega fjölbreytt og má nefna Sjávarútvegsklasa Vestfjarða, fjölbreytt rannsóknarverkefni með fyrirtækjum og bændum auk ýmiskonar hagsmunagæslu þegar okkur finnst á okkur halla. Einnig eru unnar viðhorfskannanir og haldnir fjölbreyttir fundir til að vera með púlsinn á viðhorfi íbúanna til hinna ýmsu mála. Undanfarið hef ég unnið að því að efla rannsóknir og menntun í fiskeldi á Vestfjörðum og 1. júní síðastliðin var opnað Samvinnurýmið Vatneyrarbúð og fyrsta eftirlitsstarf MAST á sunnanverðum Vestfjörðum komið í hús.

Það sem er skemmtilegast við starfið er hversu fjölbreytt það er, það bætist stöðugt við þekkingu mína á Vestfjörðum bæði hvað varðar atvinnulífið og ekki síður um náttúruna og þorpin. Vestfirðingar eru að bardúsa í öllu mögulegu og virkilega gaman að vera í samskiptum við það hugdjarfa fólk sem hefur valið að vinna að uppbyggingu á Vestfjörðum.

Fyrir utan vinnuna er ég í Skógræktarfélagi Patreksfjarðar og Kvenfélaginu Sif en það er gaman að sjá hvað svona sjálfboðaliðasamtök geta afkastað miklu og hafa gríðarlega mikil áhrif til að bæta samfélögin. Ég er mikill tónlistarunnandi og hef fylgst vel með starfsemi Tónlistarskóla Vesturbyggðar í gegnum börnin mín sem hafa notið góðs af því góða starfi sem þar fer fram.

Við erum svo heppin að vera með glæsilega íþróttamiðstöð og sundlaug á Patreksfirði en þangað legg ég leið mína á veturnar til að geta sinnt aðal áhugamálinu á sumrin sem eru fjallgöngur. Alveg með ólíkindum hvað gönguferðir gera mikið fyrir sálarþrekið.

Þegar á allt er litið er lífið hvort heldur í leik eða starfi svolítið eins og fjallganga. Maður byrjar neðst, paufast upp og sér ekki fram á að komast nokkru sinni á toppinn. Þegar á toppinn er komið gleymist alveg hversu erfitt og mikil vinna þetta var allt saman. Lítum svo stolt yfir farin veg og finnum okkur nýjan topp að paufast upp. Í stuttu máli brenn ég fyrir vestfirsku samfélagi og náttúru og nýt þess að vera hluti af því alla daga.

DEILA