Vestfjarðavíkingur!

Opið bréf til Vestfirðinga.

Hafandi búið utan Vestfjarða nú í fjögur ár hefi ég haft tækifæri til að skoða „landsvæðið“ með augum utanaðkomandi. Það hefur vissulega glatt mig að innstu hjartarótum að sjá að Vestfirðir eru að ná vopnum sínum aftur! Aftur! kann einhver að spyrja? Já það er auðskilið því fæstir þekkja sögu Vestfjarða!

Vestfirðir og íbúar þess hafa að nokkru leiti skapað sögu Íslands og samskipti þess við umheiminn. Í því sambandi leyfi ég mér að nefna Fóstbræðrasögu með fóstbræðrunum Þormóði Kolbrúnarskáld og Þorgeiri Hávarðarsyni, hvar annar var vígamaður en hinn kvennamaður. Ekki má gleyma Þorbjörgu digru í Vatnsfirði, sem kom Gretti sterka Ásmundarsyni undan lífláti heimamanna. Skilt er mér að nefna fyrsta lækni íslendinga, Hrafn Sveinbjarnarson og ekki má gleyma „fyrsta forseta Íslands Jóni Sigurðssyni. Hér ber mér skylda að nefna fyrsta véldrifna bát á Íslandi „Stanley“ og fyrstu alvöru utanríkisverslun Íslendinga Ásgeirsverslun.

Já það mætti bæta sitthverju við þessa upptalningu, en lítum til dagsins í dag.

Þá ég kom að sveitarstjórnamálum á Vestfjörðum fann ég til vanmáttar okkar hvað atvinnuuppbyggingu og íbúaþróun varðaði, þá kom til umræðu olíuhreinsistöð, því öllum var ljóst að e-ð nýtt þurfti til atvinnuuppbyggingar. Nú hafa Vestfirðir, í kjölfar uppbyggingar sjávareldis á laxi, náð að því er virðist, vopnum sínum á ný. Svo grátlegt sem það kann að hljóma þá virðist það ÞYRNIR í augum „góða fólksins“ og einkum þeirra sem búa utan Vestfjarða! Með það í huga flýgur að mér ferskeytla er ég heyrði og nam í æsku;

Höfðingjar og heiðurkrans
héðan burtu fýkur.
Æðst embætti innanlands
allt til Reykjavíkur.

Frá því að þetta var kveðið hefur fátt breytst. Góða fólkið og landverndarsinnarnir syðra, sem hamla allri framför íslensks samfélags, hvort heldur á sviði samgangna, orkuöflunar eða atvinnutækifæra,  sjá ofsjónum yfir því að fallandi byggðir nái að rétta úr „kútnum“. Landsbyggðin á því miður formælendur fáa, sem  reyna á málefnalegum  grunni, að mótmæla eða gagnrýna skoðanir þessara „BESSERWISSERA“, sem ekki sjá fram fyrir tærnar á sér og hugsa sjaldnast um hvað landinu og íbúum þess er fyrir best.

Vestfirðingar, við erum heppin að eiga talsmann, sem áður var á alþingi okkar Íslendinga, sem nú berst með „sleggju“ og klóm fyrir framtíð okkar frábæra samfélags. Þessi maður er; Kristinn H. Gunnarsson og legg ég til að hann verði „Útnefndur VESTFJARÐA Vkingurinn“

Kæru Vestfirðingar til hamingju með 80 ára afmæli lýðveldis Íslands, sem ekki væri haldið uppá ef ekki hefðu Vestfirðingar komið við sögu! Saga lands og þjóðar eftir þennan dag er óskrifuð, en þar munu Vestfirðir sem hingað til koma við sögu.

Vestfjörðum allt til heilla
Þorsteinn Jóhannesson, skurðlæknir
Yfirlæknir og forstöðulæknir HVEST til 27 ára,
bæjarfulltrúi í 8 ár í Ísafjarðarkaupstað og Ísafjarðarbæ og forseti bæjarstjórnar og formaður bæjarráðs.

„Situr í helga steininum“

DEILA