Ísafjörður: ný slökkvistöð gæti kostað 460 m.kr.

Slökkvistöð Ísafjarðar. Mynd: Ísafjarðarbær.

Í minnisblaði sviðsstjóra umhverfis- og eignarsviðs Ísafjarðarbæjar til bæjarráðs segir að áætlað sé að kostnaður vegna slökkvistöðvar sé um 460.000 kr./fm. Um er að ræða viðmiðunartölu.

Þannig myndi 1.000 fermetra slökkvistöð kosta um 460 m.kr. og 800 fermetra stöð um 368 m.kr.

Sviðsstjórinn lagði til við bæjarráð eftirfarandi tillögu:

  1. heimila undirbúningsvinnu, sem felur í sér faglegt mat á stærð húsnæðis m.t.t. fjölda starfsmanna og tækjabúnaðar.
  2. vinna nákvæmt kostnaðarmat þegar niðurstaða þarfagreining liggur fyrir um helstu stærðir og búnað húsnæðisins.
  3. leiða málið áfram í fjárhagsáætlun næsta haust. Verkinu mætti eflaust skipta niður á 2-3 ár.

Fyrir liggi að töluvert er af uppsöfnuðu viðhaldi sl. ára á núverandi slökkvistöð , sem- og stöðin er komin til ára sinna. Elstu hlutar frá 1938 og stöðin frá 1950 með síðari stækkun 1978.

Helstu verkþættir fela í sér, að skipta um hluta af þaki, t.a.m. yfir þjónusturými, niðurrif innanhúss þ.e. rakaskemmd byggingarefni og síðast en ekki síst endurbygging. Útveggi þarf að háþrýstiþvo, sprunguþétta, múrviðgerðir og málning. Elstu hluta (skúrar ) væri æskilegast að klæða og einangra.

Um töluverðar fjárhæðir sé að ræða og skoða þurfi þær í samhengi við nýja slökkvistöð.

Bæjarráð fól bæjarstjóra að láta gera þarfagreiningu á stærð og búnaði nýrrar slökkvistöðvar.

DEILA