Könnun um búsetuskilyrði: Strandir og Reykhólar koma verst út

Í könnun sem landshlutasamtökin utan höfuðborgarsvæðisins ásamt Byggðastofnun stóðu að um mat íbúa á búsetuskilyrðum koma Strandir og Reykhólar verst út. Svæðið er lægst í matinu af 24 landsvæðum og það lækkar frá síðustu könnun.

Sunnanverðir Vestfirðir eru einnig neðarlega í könnuninni eða í 21. sæti en þó hafa búsetuskilyrðin batnað frá síðustu könnun þegar svæðið varð lægst. Norðanverðir Vestfirðir eru í 11. sæti og búsetuskilyrðin hafa heldur batnað að mati svarenda.

Íbúar Stranda og Reykhóla voru óánægðastir allra svæða með þjónustu sveitarfélags síns.

Eyjafjörður kom best út úr þessari könnun, Skagafjarðarsýsla var í öðru sæti og Akureyri í því þriðja.

Könnuð var afstaða til 40 atriða. Könnunin fór af stað í október 2023 og svör voru enn að berast í febrúar 2024. Könnunin var sent út á þremur tungumálum. Könnunin var síðast gerð 2020.

Kannaður var hugur íbúa til búsetuskilyrða, aðstæður á vinnumarkaði og afstöðu til nokkurra mikilvægra atriða, s.s hamingju og hvort íbúar séu á förum frá landshlutanum.

Á Vestfjörðum voru send út til um 3.500 manns. Svarhlutfall var 42% á norðanverðum Vestfjörðum, 18% á sunnanverðum Vestfjörðum og 15% á Ströndum og Reykhólum. Samtals voru svörin um 930.

Á sunnanverðum Vestfjörðum koma þættirnir laun og atvinnuöryggi vel út, en afþreying, málefni aldraðra og vegakerfi illa.

Á norðanverðum Vestfjörðum fá menning, mannlíf og tónlistarskóli háa einkunn en rafmagnsöryggi er það lægst á blaði.

DEILA