Þjóðskrá: fjölgar á norðanverðum Vestfjörðum

Ísafjörður. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Íbúum með lögheimili á Vestfjörðum fjölgaði um 54 á sex mánaða tímabili, frá 1. desember 2023 til 1.júní 2024. og voru þeir orðnir 7.531. Fjölgunin er 0,7% en á landsvísu fjölgaði landsmönnum um 1,1%. Nemur mannfjölgun á Vestfjörðum um 2/3 af fjölgun landsmanna á þessu tímabili.

Á þremur og hálfu ári , frá 1. desember 2020, hefur Vestfirðingum fjölgað um 6%. Heildarfjölgunin á landinu er liðlega 9% á sama tíma.

Fjölgunin á Vestfjörðum síðustu sex mánuði er nær eingöngu á norðanverðum Vestfjörðum. Í Ísafjarðarbæ fjölgaði um 45 íbúa, um 7 íbúa í Bolungavík og í Súðavík fjölgaði um 5 manns. Samtals fjölgaði um 57 manns á svæðinu. Fjölgunin í Ísafjarðarbæ var 1,1% eða sú sama og var á landsvísu.

Á sunnanverðum Vestfjörðum virðist fjölgunin síðustu ár hafa stöðvast. Í Vesturbyggð fækkaði um 5 manns en fjölgaði í Tálknafjarðarhreppi um 7 íbúa. Samtals þá fjölgaði um 2 íbúa á svæðinu.

Í Strandasýslu og Reykhólahreppi varð fækkun um 5 manns. Í Kaldrananeshreppi fjölgaði um 6 íbúa, en fækkaði í Árneshreppi um 4, einnig um 4 í Reykhólahreppi og í Strandabyggð fækkaði um 3.

Flestir íbúar eru í Ísafjarðarbæ 3.980 og nálgast sveitarfélagið 4.000 íbúa markið. Í sameinuðu sveitarfélag Vesturbyggðar og Tálknafjarðar voru 1.457 íbúar þann 1. júní sl. og 1.025 í Bolungavík.

Athuga ber að Þjóðskrá Íslands og Hagstofunni ber ekki saman um íbúafjölda og hefur Hagstofan gefið út tölur um íbúafjölda um síðustu áramót og telur landsmenn vera um 18 þúsund manns færri en tölur Þjoðskrár bera með sér.

DEILA