Vilja hækka framlag til Vesturafls og fjölsmiðjunnar

Velferðarnefnd Ísafjarðarbæjar hefur falið starfsmönnum velferðarsviðs að vinna drög að nýjum samningi við Vesturafl og fjölsmiðjuna. Bæjarráð hefur einng rætt málið og  fól bæjarstjóra að kanna mögulega aðkomu annarra sveitarfélaga til samstarfs. Er þar rætt um Bolungavíkurkaupstað og Súðavíkurhrepp. Miðað við íbúafjölda um síðustu áramót yrðu kostnaðarhlutföll nýs samnings þannig að 80,24% kæmi í hlut Ísafjarðarbæjar og Súðavíkur en framlag Bolungarvíkurkaupstaðar yrði 19,76%.

Fyrir liggur erindi Vesturafls og fjölsmiðjunnar frá apríl sl þar sem farið er fram á aukið framlag til að mæta launahækkunum og gera starfsemina samkeppnishæfa um laun.

Í fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar fyrir 2024 er gert ráð fyrir kr. 10.718.000 í styrk til starfseminnar. Skiptist fjárhæðin í kr. 8.735.904 til Vesturafls og s kr. 1.969.536 til fjölsmiðjunnar.

Í minnisblaði sviðsstjóra velferðarsviðs kemur fram að starfsfólk félagsþjónustu velferðarsviðs telji að starfsemi Vesturafls og sú þjónusta sem þar er veitt hafi verið mikilvæg sem félagslegt úrræði og stuðningur sem liður í geðrækt og ekki síður hvatning til virkni í gegnum Fjölsmiðjuna. Er lagt til að óskað verði eftir upplýsingum um launa- og rekstrarkostnað Vesturafls/Fjölsmiðju þannig að fram komi skýrt skilgreind þörf fyrir aukið framlag sem sveitarfélagið geti tekið afstöðu til. Jafnframt verði rætt um hlutfallslega þátttöku Bolungarvíkurkaupstaðar.

DEILA