Lambagras

Lambagras er ein af algengustu jurtum landsins.  Það vex á melum, söndum og þurru graslendi.  Það vex jafnt á láglendi sem hátt til fjalla, víða í 1100-1200 m hæð á Tröllaskaga. Það hefur hæst fundizt í 1440 m hæð á Hvannadalshrygg. Lambagrasið blómgast fremur snemma á vorin. Það myndar sérkennilegar, ávalar þúfur með langri og sterkri stólparót niður úr, og er raunar auðþekkt á þeim. Stundum hefur þó komið fyrir að menn villist á vetrarblómi og lambagrasi, en vetrarblómið hefur tvískipta frævu og gjörólík laufblöð. Nokkuð algengt er að sjá lambagras með hvítum blómum.

Lambagrasþúfurnar eru alsettar blaðsprotum og leggstuttum blómum um blómgunartímann. Blómin eru um 8-10 mm í þvermál og álíka löng. Krónublöðin eru bleik, nagllöng og frambreið með skoru eða bug í endann. Bikarinn er krukkulaga, 5-7,5 mm á lengd, grunnskertur með fimm sljóum tönnum, rauður í endann, en ljósari og oft grænn neðan til, hárlaus nema með randhárum í vikunum milli bikartannanna. Fræflar eru tíu, ein fræva með þremur stílum. Aldinið er aflangt, sívalt hýði um 7-10 mm langt, með útstæðum tönnum, stendur út úr bikarnum. Fræin eru dökkgráleit eða svört, nýrlaga eða kringluleit, um 1 mm í þvermál. Laufblöðin eru í þéttum hvirfingum, striklaga, venjulega 3-8 mm á lengd, í skugga oft miklu lengri eða allt að 15 mm, 1-2 mm á breidd, broddydd, með örsmáum tannhárum á röndunum. Stönglarnir eru marggreindir, neðan til oft þaktir leifum af gömlum blaðhvirfingum fyrri ára.

Af vefsíðunni floraislands.is

DEILA