Markaveisla á Torfnesi

Felix Rein Grétarsson skoraði fyrsta mark leiksins. Mynd Hörður/Instagram

Hörður frá Ísafirði vann stórsigur á Afríku í 5. deild karla í gær en leikar fóru 10-1 fyrir heimamenn.

Felix Rein Grétarsson skoraði fyrsta mark leiksins og jafnframt sitt fyrsta mark í vetur á 14 mínútu en það reyndist eina mark fyrri hálfleiks.

Í seinni hálfleik opnuðust allar flóðgáttir. Helgi Hrannar Guðmundsson skoraði annað mark Harðar á 48 mínútu og fjórum mínútum síðar bætti Gautur Óli Gíslason þriðja markinu við.

Helgi Hrannar var svo aftur á ferðinni á 64 mínútu og Jóhann Samuel Rendall skoraði svo fimmta marka Harðarmanna fjórum mínútum síðar.

Harnarmenn voru hvergi nærri hættir. Jóhann Samuel skoraði aftur á 72 mínútu áður en Gabríel Heiðberg Kristjánsson bætti tveimur mörkum í röð á 80 og 82 mínútu.

Lið Afríku náði að klóra í bakkann á 84 mínútu með marki Anass Nikolai Ninir áður en Hreinn Róbert Jónsson bætti við tíunda marki heimamanna á 89 mínútu leiksins.

Með sigrinum skaust Hörður aftur upp í þriðja sæti B-riðils 5. deildarinnar með 9 stig á meðan Afríka vermir enn botnsætið án stiga.

Næsti leikur Harðar er laugardaginn 15. júní er liðið mætir Smára en leikurinn fer fram í Fagralundi í Kópavogi.

DEILA