Við Djúpið: fjölbreytt dagskrá framundan

Hátíðarpassi tónlistarhátíðarinnar Við Djúpið veitir aðgang að öllum tónleikum hennar á bestu kjörunum. Hægt er að kaupa passan strax á netinu eða við innganginn á tónleikum. Miða sala á viddjupid.is, sjá hlekk í bio.

Það er ekki nema rúm vika í að talið verði í fyrstu tónleika hátíðarinnar í ár. Þá fer í hönd spennandi tónleikavika á Ísafirði. Hér er yfirlit yfir alla tónleikadagskrána.

17. júní – mánudagur

Undanfarin ár hefur skapast sú hefð að tónlistarhátíðin Við Djúpið hefjist á lýðveldisdeginum. Fyrstu tónleikarnir eru huggulegir útitónleikar í blómagarðinum. Þar stíga á stokk Ísfirðingarnir Svava Rún Steingrímsdóttir, Skúli Mennski og Pétur Ernir Svavarsson. Kl. 20 opnar hátíðin svo formlega á spennandi kammertónleikum þar sem meðlimir Orchester um Trappenhaus koma fram og leika verk eftir Claude Debussy, Philippe Gaubert, Paul Hindemith og fleiri.

👉 17:00: Pikknikk-tónleikar í blómagarðinum á Austurvelli (Facebook)

👉 20:00: Opnunartónleikar í Hömrum (Facebook)

18. júní – þriðjudagur

Það er óvíst hvað verður á efnisskrá tónleikanna í Hömrum kl. 20 á þriðjudagskvöldi hátíðarinnar. Þar bregst strengjakvartett nefnilega við neyðartilfellum af öllu tagi. Þinn eigin Bráðakonsert býður áheyrandanum að fá bót meina sinna, því hljóðfæraleikararnir bregðast við bráðatilfellum tónleikagesta með klassískri innspýtingu við hæfi. Í hádeginu fáum við harmonikutóntóna frá Bosníu-Hersegóvínu í Bryggjusal Edinborgarhússins.

👉 12:15: Harmonikutóntónar á hádegistónleikum í Bryggjusal (Facebook)

👉 20:00: Bráðakonsert í Hömrum (Facebook)

19. júní – miðvikudagur

Miðvikudagurinn er tileinkaður tónlist frá Ameríku. Í hádeginu leikur bandaríska píanótríóið Antigone þrjú ólík verk eftir tónskáld fædd á 20. öld og aldamótaárinu 2000. Um kvöldið verða á dagskrá tvö verk eftir bandaríska tónskáldið Ellis Ludwig-Leone. Um er að ræða söngvasveiginn False We Hope fyrir söngkonu, strengjakvartett, píanó og hljóðgervil. Eliza Bagg syngur, kvartett úr Orchester im Treppenhaus leikur ásamt tónskáldinu sem spilar á hljómborð. Á tónleikunum er strengjakvartetti tónskáldsins Speech after the Removal of the Larynx (ísl: Tal eftir að raddböndin hafa verið fjarlægð) ofið saman við söngvasveiginn.

👉 12:15: Made in America í Bryggjusal Edinborgarhúss (Facebook)

👉 20:00: False We Hope í Hömrum (Facebook)

20. júní – fimmtudagur – sólstöður

Það verður vetrarlegt á sumarsólstöðum við Djúpið. Þegar sól er hæst á lofti minnumst við vetrarins á hátíðinni. Í hádeginu frumflytur Sæunn Þorsteinsdóttir í Evrópu nýtt verk Veronique Vöku, Neige éternelle (ísl: Elílfur snjór). Verkið er samið fyrir Sæunni og var frumflutt í Bandaríkjunum fyrr á þessu ári.

Um kvöldið nær hátíðardagskráin ákveðnu hámarki. Orchester im Treppenhaus ásamt ísfirsku sópransöngkonunni Herdísi Önnu Jónasdóttur flytja Vetrarferðina eftir Franz Schubert í nýlegri útsetningu hljómsveitarstjórans Thomasar Posth og Fynns Großmanns. Útsetningin hefur ekki hljómað oft á tónleikum og aldrei fyrr á Íslandi.

👉 12:15: Elífur snjór í Bryggjusal (Facebook)

👉 20:00: Vetrarferðin í Hömrum (Facebook)

Þýska kammersveitin Orchester im Treppenhaus kemur fram sem heild og í minni hópum á fjölmörgum tónleikum hátíðarinnar.

21. júní – föstudagur

Föstudagurinn er tileinkaður nýrri tónlist. Um kvöldið leikur Cauda Collective þrjú ný strengjatríó og tvo nýlega kvartetta eftir meðlimi Errata tónskáldahópsins. Í hádeginu sama dag bjóða tvífararnir og vinirnir Halldór Smárason og ameríska tónskáldið Ellis Ludwig-Leone upp á dagskrá með sönglögum og fleiru þar sem þeir para saman tónsmíðar sínar. Þar sem hádegistónleikarnir duga sennilega ekki til verður framhald síðkvölds í brugghúsinu Dokkunni.

👉 12:15: Tvífarar í Bryggjusal (Facebook)

👉 20:00: Endurfundir í Hömrum. (Facebook)

👉 22:00: Tvífarar, framhald, á Dokkunni (Facebook)

22. júní – laugardagur

Lokadagur hátíðarinnar hefst á tónleikum kl. 12 þar sem nemendur á námskeiðum hennar koma fram í Hömrum. Aðgangur er ókeypis.

Síðdegis, kl. 17, er svo komið að lokum hátíðarinnar en þá stíga listamenn hennar á stokk í fjölbreyttum hópum og við heyrum meðal annars Holberg-svítu Griegs, kafla úr píanókonserti eftir Beethoven og nýja spennandi tónlist.

👉 12:00 Nemendatónleikar í Hömrum

👉 17:00 Lokahátíð í Hömrum (Facebook)

DEILA