Íslenska lýðveldið 80 ára

Íslenska lýðveldið var stofnað á Þingvöllum þann 17. júní 1944 og fagnar því 80 ára afmæli á árinu. Af því tilefni skipaði Katrín Jakobsdóttir þáverandi forsætisráðherra nefnd sem unnið hefur að undirbúningi viðburða til að halda upp á tímamótin. Nefndin er skipuð fulltrúum forsætisráðuneytisins, menningar- og viðskiptaráðuneytisins, skrifstofu Alþingis, skrifstofu forseta Íslands og Þingvallaþjóðgarðs.

Íslendingar höfðu á seinni hluta 19. aldar og snemma á 20. öld smám saman fengið aukið sjálfstæði með stjórnarskrá árið 1874 sem veitti Alþingi löggjafarvald, heimastjórn árið 1904 og loks fullveldi árið 1918. Með stofnun lýðveldis hér á landi árið 1944 lauk sambandi Íslands og Danmerkur sem staðið hafði yfir í aldir og var því stjórnarfari sem við þekkjum í dag komið á.

Sérstök hátíðardagskrá í tilefni af 80 ára afmæli lýðveldisins hefur þannig verið sett upp með fjölda viðburða. Á þessu vefsvæði er að finna yfirlit með upplýsingum um viðburði og verkefni sem munu fara fram í tilefni af lýðveldisafmælinu en þar má meðal annars nefna útgáfu bókar um þjóðhátíðarljóð, hátíð á Hrafnseyri, þjóðhátíð á Þingvöllum, gönguferðir um þjóðlendur, opið hús á Bessastöðum og Alþingi auk menningarviðburða um allt land. Hátíðahöldin ná hámarki 17. júní, þegar 80 ár eru liðin frá stofnun lýðveldis á Íslandi, með dagskrá og kórasöng um allt land.

DEILA