Vikuviðtalið: Jóhann Birkir Helgason

Ég er fæddur á Ísafirði 16. júní 1971, gekk í Grunnskólann á Ísafirði, fór síðan í Iðnskólann á Ísafirði og lærði smíðar. Vann samhliða námi í Trésmiðjunni Hnífsdal hjá bróðir mínum Magnúsi og afa mínum Geirmundi Júlíussyni. Fór svo í framhaldsnám í Tækniskóla Íslands og lærði þar byggingatæknifræði. Móðir mín er Erna Magnúsdóttir og faðir minn heitinn Helgi Geirmundsson. Við erum sex systkinin og búum fimm af okkur á Ísafirði.

Eftir nám í Reykjavík flutti ég til Hnífsdals með konunni minni Gabríelu Aðalbjörnsdóttur, skrifstofustjóra hjá Sýslumanninum á Vestfjörðum, þar höfum við búið síðan 1995. Við eigum þrjú börn, Tómas fæddur 1995, Aðalbjörn fæddur 1998 og Júlíana Lind fædd árið 2003. Gabríela er innfæddur Hnífsdælingur, dóttir Bjössa og Siggu Lúllu. Sjálfur er ég að vísu Hnífsdælingur því mamma og pabbi bjuggu sín fyrstu ár í Hnífsdal og byggðu þar hús, þá fluttu afi og amma til Hnífsdals frá Hornströndum á sínum tíma.

Eftir nám hóf ég störf hjá Tækniþjónustu Vestfjarða, var þar í nokkra mánuði og færði mig svo yfir til Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen. Árið 2003 tók við sem sviðstjóri hjá Ísafjarðarbæ, var þar í 12 ár, það var mjög lærdómsfullt og verkefnin mjög fjölbreytt og enginn dagur eins. Ég tók svo við útibústjórastöðu hjá Verkfræðistofunni Verkís sem var áður Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsen þannig að ég færði mig bara til um eina hæð í Stjórnsýsluhúsinu. Verkfræðistörf í litlu sveitarfélagi eru mjög fjölbreytt og margt af því er það sem enginn sér en nauðsynlegt að sé í lagi. Okkur finnst sjálfsagt að skrúfa frá krananum heima hjá okkur og fá okkur vatn að drekka og keyra eða hjóla í vinnuna en það þarf að huga að mögrum hlutum svo þetta sé allt saman hægt. Vinnan mín snýst því um að byggja upp samfélög.

Árið 2022 varð ég bæjarfulltrúi og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Ísafjarðarbæ. Þrátt fyrir að hafa starfað ein 12 ár hjá Ísafjarðarbæ þá sé ég rekstur sveitarfélagsins í öðru ljósi en áður. Það hjálpar verulega að hafa unnið við gerð fjárhagsáætlanna í öll þessi ár og því liggur sá hluti bæjarfulltrúans nokkuð vel fyrir mér. Samstarfið í bæjarstjórninni hefur gengið vel og ekki mikið um ágreining, ástæðan er líklega sú að við náum að ræða málin og komumst að sameiginlegri niðurstöðu í flestum málum. Meirihlutinn tekur vel í góðar hugmyndir minnihluta og öfugt.  Þegar allt er í hnút milli flokka í bæjarstjórn og allt gert til að finna að því sem gert er þá ganga mál hægt og illa í gegnum kerfið. Það hefur verið vandamál hjá Ísafjarðarbæ. Það eru spennandi tímar framundan og mikil uppbygging næstu árin, ég horfi á hlutverk mitt sem kjörinn fulltrúa að vinna að hag bæjarfélagsins.

Þegar ég er ekki í vinnunni eða að sinna bæjarfulltúastörfum þá nýti ég tækifærið og fer golf, alveg ótrúlega skemmtilegt sport því árangurinn er svo mælanlegur. Sé bara eftir að hafa ekki byrjað fyrr, áður en ég varð svona stirður. Skíðin koma svo á veturna og þá sérstaklega fjallaskíðin, eitt það skemmtilegasta sem ég geri er að fara í ferð með vinum mínum, gamla efri lyftan er alltaf vinsæl. Ég skráði mig í Skógræktarfélag Ísafjarðar fyrir nokkrum árum síðan og varð svo formaður félagsins fyrir nokkrum árum. Við höfum verið að gróðursetja nokkur þúsund plöntur á ári og leggja göngustíga svo almenningur geti notið þess að ganga um svæðið allt frá Stórurð og inn í Tungudal. Vonandi gefst okkur tími til að gera enn meira á næstu árum.

DEILA