Veðrið í maí 2024 – Sólríkt á Akureyri

Hitavik (°C) sjálfvirkra stöðva í maí miðað við síðustu tíu ár (2014 til 2023).

Maí var tiltölulega hlýr, sérstaklega á norðaustan- og austanverðu landinu. Þar var sólríkt og þurrt. Það var tiltölulega kaldara og úrkomusamara suðvestan- og vestanlands.

Meðalhiti í Reykjavík í maí var 6,9 stig. Það er 0,2 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020, en 0,1 stigi yfir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn 7,8 stig, 1,6 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020 en 1,2 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhiti mánaðarins 6,4 stig og 7,7 stig á Höfn í Hornafirði.

Maí var blautur á suðvestan- og vestanverðu landinu en þurr norðaustan- og austanlands.

Úrkoma í Reykjavík mældist 73,3 mm sem er 40% umfram meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældist úrkoman 13,0 mm sem er um 55% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020.

Það var óvenjulega úrkomusamt í Stykkishólmi í maí. Þar mældist úrkoman 112,5 mm sem er nærri þrefalt meira en í meðalári og þriðja mesta maíúrkoma sem mælst hefur í Stykkishólmi frá upphafi mælinga. Álíka mikil úrkoma mældist í maí 2018 (113,2 mm), en mest mældist hún í maí 1875 (132,0 mm). Í Stykkishólmi var sólarhringsúrkoman þ. 25. skráð 39 mm sem er það mesta sem mælst hefur þar á einum sólarhring í maímánuði. Óvenju mikil úrkoma mældist líka í Grundarfirði og Ólafsvík þennan sólarhring.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri í Reykjavík voru 16 sem er 6 fleiri en í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoma 1,0 mm eða meiri 4 daga sem er einum færri en í meðalári.

Jörð var alauð alla morgna í maí í Reykjavík. Á Akureyri var flekkótt jörð fyrstu tvo daga mánaðarins, en aðra daga var hún auð.

Það var sérlega sólríkt á Akureyri í maí. Sólskinsstundirnar mældust 252,5, sem er 81,5 stundum fleiri en að meðaltali 1991 til 2020. Sólskinsstundirnar hafa aðeins þrisvar sinnum mælst fleiri á Akureyri í maímánuði, en það var árin 1968 (290,8), 2012 (287,4) og 1975 (259,4). Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 145,3 í maí, sem er 63,7 stundum undir meðallagi áranna 1991 til 2020.

DEILA