Lóa styrkir fjögur verkefni á Vestfjörðum

Tilkynnt hefur verið um úthlutanir úr Lóu – nýsköpunarstyrki fyrir landsbyggðina.

Í ár hljóta 27 verkefni styrk alls fyrir tæplega 139 milljónir króna. Nýsköpunarverkefnin sem hljóta styrk að þessu sinni eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg og dreifast um landið allt. Styrkjum úr Lóu er ætlað að styðja við eflingu byggða og landshluta með nýskapandi verkefnum, auk þess að hlúa að vistkerfi nýsköpunar á landsbyggðinni.

Alls bárust 89 umsóknir á fjölbreyttum sviðum, frá nýskapandi verkefnum með sjálfbærni og fullnýtingu afurða að leiðarljósi til uppbyggingu innviða fyrir rannsóknir og þróun og innleiðingu nýrra aðferða og verkfæra fyrir nýsköpunarumhverfið.

Lóa – nýsköpunarstyrkir fyrir landsbyggðina 2024 voru auglýstir 20. febrúar sl. og var umsóknarfrestur til og með 4. apríl. Matsnefnd fór yfir allar umsóknir og gerði í kjölfarið tillögur um styrkveitingu til háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Í matsnefnd Lóu árið 2024 sátu Eva Hrund Einarsdóttir, framkvæmdarstjóri MAk (Menningarfélags Akureyrar), Tryggvi Hjaltason, formaður Hugverkaráðs og Sesselja Vilhjálmsdóttir framkvæmdastjóri Tagplay.

Úthlutað til Vestfjarða

Vésteinn Tryggvason fékk 822.000 kr í Shirako er verkefni sem snýr að þurrkun og vinnslu á svilamjöli úr þorsksvilum sem og og innihaldsgreiningu á mjölinu í kjölfarið. Svilamjölið má síðan nota í íslenskan landbúnað. Verkefnið verður unnið á Vestfjörðum og miðar að því að minnka sóun í sjávarútvegi með nýtingu á þrosksvilum sem annars eru lítið nýtt.

Samfélags-miðstöðin Blábankinn á Þingeyri fékk 7.718.000 kr  til að styrkja starf sitt með auknum viðburðum og samstarfi. Verkefnið gengur út á að festa sess þess sem tryggur aðili í alþjóðasamstarfi og sem helst sérfræðisetur um byggðaþróun og málefni dreifðra og jaðarsettra byggða.

Vestfjarðastofa fékk 2.100.000 kr í Blátt áfram – lausnir fyrir lífrænar virðiskeðjur. Markmið verkefnisins er að finna og þróa ný verðmæti úr lífrænum lífmassa sem fellur frá sjávarútvegi á Vestfjörðum. Á sviði lítækninnar eru lausnir til að skapa verðmætari vörur úr mikilvægu hráefni til áframhaldandi vinnslu. Á grundvelli hring-rásarhagkerfisins eru tækifæri til frekari verðmætasköpunar byggðri á vísindum sem stuðla að nýsköpun.

POLS Engineering ehf fékk 2.100.000 kr til að þróa snjómæla sem kallast SM4 og eru nýttir til snjóflóða-vöktunar. Afurðin samanstendur af mælunum, gagnaúrvinnslu og gagnafram-setningu á sérstakri vefsíðu. Í þessu verkefni verður gagnaúrvinnslan og fram-setning endurbætt og gerð aðgengileg fyrir bæði sérfræðinga og almenning.

DEILA