Við Djúpið: Ísfirðingar áberandi

Halldór Smárason.


Tónlistarhátíðin Við Djúpið fer fram á Ísafirði dagana 17.–22. júní 2024.

– Þýsk kammersveit sækir hátíðina heim
– Ísfirðingar áberandi í dagskránni í ár
– Bandarískri tónlist gert hátt undir höfði – tónskáldið Ellis Ludwig-Leone mætir
– Nýtt námskeið fyrir börn


Hæst ber koma þýsku kammersveitarinnar Orchester im Treppenhaus. Hljómsveitin, sem á heimilisfesti í Hannover, hefur getið sér einkar gott orð fyrir frísklega framkomu og fágaðan hljóðfæraleik. Hljómsveitin kemur bæði fram í minni hópum á tónleikum hátíðarinnar en einnig í heild. Tónlistarhátíðin Við Djúpið er að jafnði haldin þegar sól er hæst á lofti og á sumarsólstöðum leikur Orchester im Treppenhaus nýlega útsetningu hljómsveitarstjórans Thomasar Posth og Fynns Großmanns á Vetrarferð Franz Schuberts.

Það er Ísfirska sópransöngkonan Herdís Anna Jónasdóttir sem verður í förumannshlutverkinu í Vetrarferðinni en hún hefur áður komið fram með hljómsveitinni. Þó ekki í þessu verki en nýlega kom út hljómdiskur með flutningi sveitarinnar á útsetningu Posth og Großmanns. Koma hljómsveitarinnar og Herdísar er mikið gleðiefni en þótt ótúlegt megi virðast er þetta í fyrsta sinn sem Herdís Anna kemur fram á Við Djúpið.

Herdís Anna er ekki eini Ísfirðingurinn sem er áberandi í dagskránni í ár. Tónskáldið Halldór Smárason sem einnig nam við Tónlistarskóla Ísafjarðar á bæði ný verk á tvennum tónleikum og kemur sjálfur fram. Tónskáldakollektif hans, Errata, býður upp á ný verk fyrir strengi á tónleikum 21. júní í flutningi Cauda Collective. Þeir tónleikar eru í samstarfi við Listahátíð í Reykjavík. Halldór kemur einnig fram á tvennum tónleikum sama dag ásamt tvífara sínum, bandaríska tónskáldinu Ellis Ludwig-Leone, fyrst í hádeginu og svo síðla kvölds á Dokkunni.

DEILA